Nýlega opnaði verslunin Nettó á Selfossi netverslun fyrir viðskiptavini sína.
„Nú gefst viðskiptavinum okkar á Selfossi kostur á að gera matarinnkaupin á netinu og sækja svo vörurnar tilbúnar í poka þegar hentar í Nettó við Austurveg,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóra verslunarsviðs Samkaupa, í samtali við sunnlenska.is.
Fleiri gæðastundir með fjölskyldunni
Gunnar segir að ferlið sé einfalt og þægilegt. „Fyrst og fremst er þessi viðbót hugsuð sem tímasparnaður fyrir viðskiptavini og þetta er liður í stöðugri þróun á betrumbótum þegar kemur að þjónustu í verslunum okkar. Við vitum að fólk er sífellt á hraðferð og þess vegna viljum við við bjóða uppá þann valkost að eyða sem minnstum tíma í verslun og eyða honum kannski í annað – svo sem gæðastundir með fjölskyldunni.“
Síðastliðið haust hóf Nettó að bjóða viðskiptavinum sínum upp á að gera innkaupin á netinu. Var Nettó þar með fyrsta lágvöruverslunin á Íslandi til að bjóða upp verslun af þessari gerð á netinu. „Við vildum bjóða fólki upp á að versla ódýrt í matinn á netinu,” segir Gunnar.
„Við ákváðum að stíga létt til jarðar og hafa vaðið fyrir neðan okkur. Því byrjuðum á að bjóða upp á þjónustuna í einni verslun, Nettó Mjódd og gátum því aðeins þjónustað höfuðborgarsvæðið til að byrja með. Það gekk vel og var góður skóli fyrir okkur öll. Í upphafi settum við okkur sölumarkmið til tveggja ára og náðum því á fyrstu tíu mánuðunum. Við hlustuðum á viðskiptavini okkar og treystum okkur í næstu skref sem nú eru orðin allnokkur þessi tvö ár,“ segir Gunnar og bætir því við að viðtökurnar hafi farið fram úr þeirra björtustu vonum.
Mikil eftirspurn eftir þjónustu af þessu tagi
Aðspurður hvað hafi komið til þess að þau fóru að bjóða upp á netverslun í Nettó Selfossi, segir Gunnar að þau höfðu einfaldlega verið að hlusta á viðskiptavini sína.
„Frá því að við opnuðum fyrir þessa þjónustu haustið 2017 höfum við fengið gífurlega mikið af fyrirspurnum hvaðanæva að á landinu þar sem fólk spyr hvenær þjónustan verði í boði í þeirra heimabæ. Eftir að hafa prófað netverslunarkerfið vel og vandlega, bætt það þar sem við átti og styrkt þannig að það geti tekið á móti auknum fjölda pantana, er okkur ekkert að vanbúnaði og erum ákaflega spennt fyrir að þjónusta Selfyssinga og nærsveitunga.“
Gunnar segir að netverslun af þessu tagi sé rökrétt skref til framtíðar. „Við höfum fulla trú á að þetta sé framtíðin og erum sífellt með hugann við að bæta okkur gagnvart okkar viðskiptavinum.“