Stangveiðitímabilið hófst í gær. Það var heldur róleg byrjun á bökkum Varmár/Þorleifslækjar í gærdag og veiddust fimm fiskar. Leiðindaveður hamlar veiðum í Soginu.
Fimm sjóbirtingar veiddust í Varmá í gær og voru þeir fjögur til fimm pund. Virðist sem annaðhvort sé hrygningarfiskur genginn niður til sjávar eða að hann eigi eftir að skila sér ofan úr dal í einhverjum mæli.
Í nágrenni Kirkjubæjarklausturs var allt hvítt í morgun og gekk á með skafrenningi. Aðstæður til veiða voru mjög slæmar. Þar veiddist þó ágætlega í gær, fjórtán sjóbirtingar fyrsta daginn, segir á vef SVFR.