Út frá sjónarmiðum löggæslunnar var helgin róleg hjá lögreglunni á Suðurlandi og greinilegt að menn tóku ábyrgð og gættu þess að vera almennt ekki með samkomur sem sprengdu fjöldatakmarkanir sem tóku gildi fyrir helgina vegna fjölgunar virkra COVID smita í landinu.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi þar sem íbúum og ferðamönnum á Suðurlandi er hrósað fyrir framgöngu sína um helgina.
Lögreglumenn fóru eftirlitsferðir á veitingastaði í umdæminu vegna þeirra ráðstafana sem þar þurfti að gera. Í heildina var niðurstaðan sú að verið væri að framfylgja fyrirmælum eins og mögulegt var en þó komu upp atvik þar sem meiri mannfjöldi var kominn inn á veitingastaði en svo að það tækist að halda tveggja metra reglunni nema í huganum. Þar var rætt við rekstraraðila og hlutunum kippt í liðinn hið snarasta.
Skemmtanahald fór að jafnaði vel fram um helgina, einhver afskipti þurfti að hafa af hávaða í heimahúsum í þéttbýlinu og fréttir bárust af hópi hrossa sem hlupu í girðingar þegar einhver tók sig til í uppsveitum Árnessýslu og fór að skjóta upp flugeldum. Notkun flugelda er óheimil nema með leyfi lögreglustjóra og eru dæmi um að dýr slasist alvarlega eftir að hafa fælst við læti frá flugeldum.