Páskahelgin var róleg hjá lögreglunni á Selfossi. Nítján ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur.
Einn þeirra, erlendur ferðamaður, ók á 154 km á Suðurlandsvegi. Sá greiddi sekt sína, tæpar 100.000 krónur, á staðnum. Tveir voru kærðir fyrir fíkniefnaakstur og einn fyrir að aka sviptur ökuréttindum sem var í þriðja sinn sem hann var kærður fyrir slíkt brot.
Ungur maður beinbrotnaði er hann féll af hestbaki í Ölfusi skömmu eftir hádegi föstudagsins langa. Maðurinn var í hóp með öðrum er óhappið varð. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæsluna á Selfossi þar sem gert var að meiðslum hans.