Síðasta vika var róleg hjá lögreglunni á Suðurlandi, að því er fram kemur í dagbók hennar. Einungis tólf ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt og aðeins einn var tekinn fyrir ölvunarakstur.
Þeir sem óku of hratt voru flestir á ferðinni í Rangárvallasýslu, átta talsins.
Ellefu umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu í vikunni, langflest tengd hálku. Í einu þeirra, þar sem flutningabíll lenti út af vegi í Þrengslunum, meiddist ökumaður og var fluttur til aðhlynningar á sjúkrastofnun. Bíllinn valt og dreifðist farmurinn, fiskur, um slysstaðinn. Nokkurn tíma tók að hreinsa vettvanginn og fjarlægja bifreiðina.
Þrjú önnur slys voru tilkynnt til lögreglu í vikunni. Tvö þeirra urðu á hverasvæðinu við Geysi þar sem ferðamenn féllu og slösuðust. Í öðru tilfellinu missti viðkomandi meðvitund.