„Röngu svörin ásækja mig“

Stefán, Kári og Brúsi í keppni gegn Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 2010. Ljósmynd/FSu

Brúsi Ólason kemur úr mikilli Gettu betur fjölskyldu, en hann er frá Litlu-Sandvík í Sandvíkurhreppi. Fjórir keppendur Fjölbrautaskóla Suðurlands í gegnum tíðina koma frá Litlu-Sandvík, en það eru auk Brúsa þeir Lýður Pálsson, sem var í sigurliðinu 1986, Páll Óli Ólason og Páll Sigurðsson. Afi Brúsa, Páll Lýðsson, var dómari og höfundur spurninga í keppninni 1988 og 1989.

„Ég held að okkur þyki bara gott að vita sem mest í Litlu-Sandvík. Það er verðugt verkefni að skilja heiminn og ég held að við skiljum ekki hugmyndina um gagnslausan fróðleik,“ segir Brúsi og hlær, aðspurður um þennan mikla spurningaáhuga á heimilinu.

Brúsi Ólason. Ljósmynd/Aðsend

FSu mætir MR í úrslitum Gettu betur næstkomandi föstudagskvöld og segir Brúsi að honum lítist vel á lið FSu og það sé hörkukeppni framundan.

„Mér finnst alltaf skína í gegn hjá FSu liðunum í gegnum tíðina að þeim finnst þetta gaman og þau mæta alltaf brosandi til keppninnar. Þetta lið er engin undantekning á því. Það er frábært að við séum loksins komin aftur í úrslitin,“ segir Brúsi sem útskrifaðist úr FSu árið 2010 og starfar í dag sem kvikmyndagerðarmaður og lektor við kvikmyndalistadeild Listaháskóla Íslands.

Félagsskapurinn stendur uppúr
Brúsi keppti sjálfur fyrir FSu árin 2009 og 2010 og komst liðið í undanúrslit, í þriðja skipti í sögu skólans, árið 2010. Með honum í liðinu voru Kári Úlfsson og Stefán Hannesson, sem í dag þjálfar keppnislið skólans.

„Þetta var skemmtilegur tími. Við duttum út í útvarpi fyrra árið og náðum í undanúrslit seinna árið. Ég hugsa ennþá um spurningarnar sem ég klúðraði í útvarpinu fyrra árið, mun aldrei gleyma því að Romeó og Júlía gerist í Veróna,“ segir Brúsi og bætir við að það sem standi uppúr hjá honum í keppninni sé félagsskapurinn. „Liðsfélagar mínir eru enn þann dag í dag bestu vinir mínir og það var frábært að taka þátt með þeim. Ég verð líka að segja að röngu svörin ásækja mig stundum, ég mun ekki rugla saman Marrokkó og Mónakó aftur, frekar en að gleyma Veróna,“ segir Brúsi léttur.

Hann ætlar að sjálfsögðu ekki að missa af keppninni næstkomandi föstudagskvöld og trúir því að liði FSu séu allir vegir færir.

„Besta ráðið sem ég get gefið þeim er að stundum koma svör sem maður veit ekki alveg hvaðan koma og þá er betra að láta á þau reyna en að þegja. Varðandi möguleikana þá er MR náttúrulega í algjörri úrvalsdeild í sögu Gettu Betur en ég trúi því að það sé allt mögulegt fyrir þetta frábæra og skemmtilega lið. Við munum í öllu falli vinna hug og hjörtu þjóðarinnar, svo mikið er víst,“ segir Brúsi að lokum.

TENGDAR FRÉTTIR:
Sveinn Helgason: Komu FSu á kortið
Herdís Sigurgrímsdóttir: „Það var á við góðan Suðurlandsskjálfta“
Eyjólfur Þorkelsson: Sé ekki eftir sekúndubroti sem ég varði í FSu
Elín, Ásrún og Heimir: Engin pressa fyrir úrslitakvöldið

Fyrri greinBæjarbraut og Æskuslóð á Hvolsvelli
Næsta greinForsetahjónin í opinbera heimsókn í Mýrdalshrepp