89. ársfundur SSK var haldinn að Goðalandi í Fljótshlíð 22. apríl síðastliðinn í umsjón Kvenfélagsins Einingar í Hvolhreppi og Kvenfélagsins Hallgerðar í Fljótshlíð.
Fundurinn var vel sóttur af fulltrúum kvenfélaganna í Árnes- og Rangárvallasýslum. Forseti, varaforseti og framkvæmdastjóri Kvenfélagasambands Íslands sátu einnig ársfundinn. Fundarkonur áttu saman helgistund í kirkjunni á Breiðabólstað, sem séra Elína Hrund Kristjánsdóttir annaðist. Að henni lokinni var haldið í Goðaland og gengið til fundarstarfa.
Meðal annars sem fram kom í ársskýrslu Elinborgar Sigurðardóttur formanns SSK var að starfsárið væri helgað geðheilbrigðismálum. Á formannafundi síðastliðið haust hafi verið fyrirlestur frá Batasetri Suðurlands og á þessum fundi voru Hugrún Vignisdóttir og Berglind Friðriksdóttir, sálfræðingar sem vinna hjá Skóla og velferðarþjónustu Árnesþings, með mjög áhugaverðan fyrirlestur um kvíða og tilfinningavanda barna og unglinga. Á haustdögum verður efnt til málþings um geðverndarmál á Suðurlandi.
Styrkir voru veittir til Batasetursins og Samveru, sem aðstoðar við meðgönguþunglyndi. Elinborg greindi frá því að árið 2016 hafi SSK í nafni aðildarfélaganna gefið Heilbrigðisstofnun Suðurlands kvennaskoðunarbekk, meðferðarstól á göngudeild, hjartalínurita og lífsmarkamæli. Verðmæti þessara gjafa er um 2,2 milljónir, sem greitt var fyrir úr Sjúkrahússjóð SSK, sem fjármagnaður er með sölu á kærleiksenglum og kortum. Kvenfélögin hafa einnig styrkt heilbrigðis- og öldrunarþjónustu og skólastarf á sínum svæðum með gjöfum.
Guðrún Þórðardóttir forseti KÍ ávarpaði fundinn og kom víða við í máli sínu. Hún greindi fundarkonum frá því að kvenfélögin innan SSK hafi á undanförnum 10 árum gefið um 155 milljónir til samfélagsins. Fyrir landið allt er þessi tala um 500 milljónir. Hún segir frá starfsemi KÍ; leiðbeiningastöð heimilanna, Húsfreyjunni og því að KÍ fylgist vel með lagafrumvörpum sem eru til meðferðar á Alþingi og sendi inn umsagnir og ályktanir til að styðja við málstað kvenna, heimilanna, aldraðra og sjúkra. Hún vekur líka athygli á stuðningi KÍ við varnir gegn heimilisofbeldi.
Á ársfundinum var tilkynnt um val á Kvenfélagskonu ársins 2016 en það er Rósa Signý Finnsdóttir í Kvenfélaginu Bergþóru í Ölfusi. Hún hlaut þessa viðurkenningu og fékk innrammað heiðursskjal því til staðfestingar ásamt áletruðu kökukefli, sem er farandgripur.
Að loknum fundi var farið í skoðunarferð í Múlakot og siðan snæddur kvöldverður í boði Rangárþings-eystra.