Rósakirsi hefur verið valin einkennisplanta Hveragerðisbæjar. Plantan verður einkennandi í plöntuvali bæjarins og eru íbúar hvattir til að gróðursetja rósakirsi á áberandi staði í görðum sínum.
Unnur Þormóðsdóttir, formaður umhverfisnefndar Hveragerðisbæjar, segir að með tímanum munu íbúar og gestir bæjarins því geta notið einstakrar litadýrðar þessa fallega trés einmitt á þeim tíma sem við hvað mest þráum sumar, betra veður og blóm í haga.
Umhverfisnefnd Hveragerðisbæjar lagði til við bæjarstjórn nýverið að velja rósakirsi (Prunus Nipponica var.Kurilensis „ruby“) sem einnkennisplöntu bæjar. Bæjarstjórn samþykkti tillöguna á fundi í apríl.
Rósakirsi er fallegt tré sem stendur í blóma í maí hér á Íslandi. Tréð er harðgert og þolir þó nokkurn vind. Það nýtur sín best í sól eða hálfskugga.