Það var stór dagur í sögu áfengissölu á Íslandi í dag þegar Smiðjan brugghús í Vík í Mýrdal varð fyrsta brugghúsið á Íslandi til þess að selja bjór frá framleiðslustað.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, var fyrsti viðskiptavinurinn. Það var ekki ætlunin, en Smiðjan skoraði á Áslaugu á Twitter að mæta á staðinn og hún tók áskoruninni með glöðu geði.
Gaman að vera fyrstur
Þórey Richard Úlfarsdóttir, hjá Smiðjunni brugghúsi, segir að þetta sé stór dagur fyrir handverksbrugghúsin.
„Þetta er rosalega stórt framfaraskref í átt að frjálsari verslun. Það eru 110 ár síðan einstaklingur mátti síðast selja áfengi til annars einstaklings á Íslandi. Þannig að þetta er rosalega stór dagur fyrir öll handverksbrugghús. Það er ótrúlega gaman að vera fyrstur, en það sem er stærst í þessu er þessi sigur. Við vorum ekkert bjartsýn á að frumvarpið næði í gegn og þetta er búin að vera mikil vinna. Stjórn Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa hefur unnið mjög ötult og óeigingjarnt starf til þess að ýta þessu í gegn,“ sagði Þórey í samtali við sunnlenska.is.
„Þetta verður til þess að við getum selt út ferskari vöru og það er eitthvað sem við leggum mikla áherslu á. Þetta er betri þjónusta fyrir viðskiptavini okkar, því þeir geta nú tekið vöruna með sér héðan út og kynnt hana fyrir sínu fólki, þannig að þetta er landkynning líka. Þetta eykur líka sýnileikann og þarna náum við líka að leika okkur meira í staðinn fyrir að vera að keppa við eitthvað magn í Vínbúðinni,“ bætir Þórey við.
Stór hluti viðskiptavina eru bjórferðamenn
Að sögn Sveins í Smiðjunni er stór hluti ferðamanna sem koma við hjá þeim svokallaðir bjórferðamenn.
„Sennilega er stærstur hluti ferðamannanna sem heimsækja okkur Bandaríkjamenn og mikið af þeim eru bjórferðamenn. Þeir fara á milli landa, kaupa bjóra og gefa sínum vinum að smakka. Hingað til höfum við þurft að benda þeim á Vínbúðina og líkurnar á því að þeir fari í hana eru nánast engar. Búðin hér í Vík er til dæmis bara opin milli klukkan tvö og sex en hér í Smiðjunni getum við selt fram á kvöld,“ segir Sveinn.
Í Smiðjunni standa yfir breytingar sem verða til þess að framleiðslugeta brugghússins eykst mjög mikið.
„Staðan er þannig núna að við erum bara heppin að eiga bjór á dósum. Síðustu ár höfum við nánast ekki átt neinn bjór á þessum tíma. Núna erum við að auka framleiðslugetuna hjá okkur umtalsvert. Gerjunarplássið sem við höfum haft er 8 þúsund lítrar og núna erum við að fara upp í 24 þúsund lítra. Við framleiddum tæplega 50 þúsund lítra í fyrra, en við hefðum getað framleitt mikið meira. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvað við munum selja mikið á staðnum. Við erum bara búin að vera að einbeita okkur að breytingunum hérna og þetta var bara bónus sem kom óvænt upp og frábært að geta boðið upp á þetta. Það verður vonandi að fólk nýti sér þennan möguleika í framhaldinu,“ segir Sveinn að lokum.