Knattspyrnukonuna Hólmfríði Magnúsdóttur þarf vart að kynna. Hún á að baki langan og farsælan feril innan og utan vallar með íslenska landsliðinu og félagsliðum sínum en hún er ein leikjahæsta knattspyrnukona landsins eftir atvinnumennsku í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Bandaríkjunum.
Eftir tuttugu ár í fótboltanum lýsti Hólmfríður því yfir árið 2021 að hún væri búin að leggja skóna á hilluna en hún útilokar þó ekki að taka þá aftur af hillunni í framtíðinni.
Fríða, eins og hún er alltaf kölluð, er frá Uxahrygg á Rangárvöllum en býr nú á Selfossi ásamt sambýlismanni sínum, Einari Karli Þórhallssyni og tveimur börnum. Fríðu líkar búsetan á Selfossi vel en hún er rekstrarstjóri Ísey skyrbar í mathöllinni í miðbænum auk þess að vera nýsest í stjórn knattspyrnudeildar Selfoss og hlakkar hana til að geta miðlað af reynslu sinni þar.
Fyrr á þessu ári Fríða var hætt komin vegna veikinda og mátti ekki miklu muna að hún myndi kveðja þessa jarðvist. Með mikilli elju og dugnaði hefur henni tekist að endurheimta heilsu sína að fullu og féllst hún á að segja lesendum sunnlenska.is frá vegferð sinni að bættri heilsu, sem var hvorki létt né auðveld.
Við Fríða mælum okkur mót á Konungskaffi í miðbæ Selfoss, einn snjóbjartan dag í desember. Það er stutt fyrir hana að skreppa úr vinnunni en Ísey skyrbar er í næsta húsi. Fríða gengur hratt en örugglega inn á kaffihúsið og það er augljóst að í þessari konu – sem verður fertug á næsta ári – býr mikill lífskraftur.
Við fáum okkur sæti í einu horninu á kaffihúsinu og látum fara vel um okkur. Úr hátölurunum ómar jólatónlist, glaðvær hlátrasköll heyrast af næstu borðum og út um gluggann sjáum við fólk á þeytingi. Það eru alveg að koma jól og þessi jólin hefur Fríða sérstaklega margt að þakka fyrir.
„Það er búið að vera ágætis álag þetta ár,“ segir Fríða og brosir út í annað þegar ég spyr hana hvernig árið er búið að vera hjá henni.
„Ég veikist í lok janúar, var orðin mjög slöpp og fór á bráðamóttökuna á HSU. Þaðan var ég send heim með púst og sterkar panodil töflur. Þá var ég komin með rosa verki frá lungunum, stingi og mjög háan hita. Svo fer ég bara heim. Þessar töflur áttu klárlega að taka hitann niður en það gerðist ekkert á einum og hálfum tíma.“
Man lítið eftir þessum tíma
„Ég var mætt aftur upp á spítala eftir tvo tíma af því að ég vissi að það væri eitthvað að. Ég er þannig gerð að ég harka eiginlega allt af mér. Ég hitti sama lækninn sem var hissa að sjá mig og spyr hvort ég sé komin aftur. Ég sagði að ég þyrfti hjálp. Í framhaldinu voru teknar blóðprufur sem litu ekkert svo vel út. Um nóttina var ég sprautuð með morfíni á tveggja tíma fresti því að ég var svo rosalega verkjuð. Ég man voðalega lítið eftir þessum tíma, ég var bara í móki. Það tók alveg tvo þrjá daga að finna út hvað væri að hrjá mig. Það voru bara allir að hrista hausinn og vissu ekkert hvað var að. Það voru líka sérfræðingar í Reykjavík, blóðmeinafræðingar og fleiri, sem voru að reyna að hjálpa og reyna að finna út hvað væri að mér.“
Í ljós kom að Fríða var með bakteríusýkingu, lungnabólgu og inflúensu. „Ég var bara mjög veik. Svo héldu læknarnir að ég væri að lagast og senda mig aftur heim en ég var ekki góð heima. Ég var kannski ekki öskrandi af verkjum en ég var mjög kvalin. Ég var búin að vera í blóðprufum tvisvar, þrisvar á dag og vegna þess að gildin voru stöðug þá var ég send heim.“
Erfitt að treysta læknunum
Fríða segir að morguninn eftir að hún kom heim hafi henni hætt að lítast á blikuna og fer aftur upp á spítala. „Þá fer ég beint í varnareinangrun. Það mátti enginn koma inn til mín og læknar máttu bara koma inn til mín í sérstökum varnarbúningum. Ég var þá komin í einangrun því að ég hefði ekki mátt við neinu í viðbót. Ég þurfti að fá sér eldaðan mat því að hvítu blóðkornin voru alveg búin að tæma sig og CRP gildið var komið í 220 en það er venjulega ekki hærra en 10 hjá fólki.“
„Það var ýmislegt að og það var skipt nokkrum sinnum um sýklalyf og ég endaði á að fá sterkustu sýklalyfin í æð. Ég var líka á súrefni því að ég var byrjuð að metta mjög illa. Mér fannst mjög erfitt að treysta læknunum af því að það var búið að senda mig heim tvisvar og ég sagði læknunum það líka. Á þessum tíma var brjálað álag á sjúkrahúsinu – ég var að fá sýklalyfin of seint af því að það var svo mikið að gera og spítalinn undirmannaður,“ segir Fríða og tekur það fram að miðað við álagið sem var á þessum tíma þá var vel hugsað um hana. Óvissan sem fylgdi því að vera send heim tvisvar hafi aftur á móti verið erfið.
Var mjög hætt komin
Hólmfríður segir að þessi lífsreynsla hafi setið mjög mikið í henni og ákvað hún að fara til sálfræðings til að fá aðstoð við að vinna úr áfallinu. „Ég er líka með tvö lítil börn svo það var mjög erfitt að verða svona mikið veik og óttast um líf sitt.“
„Í sumar var mér farið að líða mjög illa og var alltaf með einhver þyngsli fyrir lungunum. Það tekur bara tíma fyrir líkamann að jafna sig eftir svona rosalega mikil veikindi. Ég fór í blóðprufu í sumar og ég vildi í leiðinni bara fá að vita hversu veik ég hafði verið þarna í janúar. Læknirinn sagði að ég hefði verið mjög hætt komin. Þá gat ég farið að loka því. Ég hef alltaf verið hraust og veikist mjög sjaldan. Það var alveg stór skellur að ganga í gegnum svona og ég hef lært mjög mikið af þessu, hversu þakklátur maður á að vera fyrir heilsuna.“
Erfitt að labba 50 metra
Fríða var samtals í sex daga á sjúkrahúsinu. „Þegar ég kom heim fann ég að ég var ekki með neitt þrek. Ég hef alltaf verið að æfa eitthvað, hef verið í fótbolta, mömmucrossfit og alltaf keyrt allt í botn en eftir þessi veikindi var mjög erfitt að labba bara fimmtíu metra. Í lok júlí var ég farin að vinna með að hlaupa einn til tvo kílómetra. Þetta tók alveg góðan tíma fyrir líkamann, lungun og allt að jafna sig eftir þetta.“
Fríða er núna farin að hlaupa eins langt og hún getur. „Fyrir sirka tveimur mánuðum þá fannst mér þetta vera komið. Þá var ég hætt að vera með þyngsli fyrir lungunum eða finna fyrir mæði við litla áreynslu. Ég er búin að prófa alls konar – fjarþjálfun og fleira sem virkaði ekkert. Kannski var ég líka að fara of geyst af stað og hafði ekki þrekið til þess.“
„Ég skráði mig svo í hlaupaþjálfun hjá Arnari Péturs og prógrammið þar hentaði mér mjög vel. Ég átti að vera hlaupa en var bara að labba. Mér fannst ég þurfa að afsaka mig við fólk „ef þið sjáið mig að labba þá get ég alveg hlaupið hraðar“ en mér fannst mjög gott að fara eftir þessu því að ég var með eitthvað ákveðið sem ég átti að gera. Þetta var alveg þolinmæði – mig langaði fara hraðar – en það er búið að skila sér þvílíkt,“ segir Fríða og bætir því við að hún hafi tekið fyrsta prógrammið tvisvar því að hún vildi svo mikið passa sig á að fara ekki of geyst af stað.
„Læknirinn sagði við mig að það hafði hjálpað mjög mikið að ég var hraust fyrir og hef hugsað vel um líkamann – ég hugsa líka alveg hvað ég set ofan í mig. Það skiptir bara öllu máli.“
Fékk streptókokka og nóróveiruna
Fríða segir að eftir veikindin hafi hún verið mjög lág í hvítu blóðkornunum og pikkaði upp allar umgangspestir. „Ég fékk streptókokka í sumar og ég fékk nóróveiruna. Ég byrjaði líka í nýrri vinnu fljótlega eftir veikindin þar sem ég þurfti að læra allt nýtt – henti mér ofan í djúpu laugina þar. Það var mjög krefjandi en líka mjög gaman. Eftir á að hyggja var þetta líklega of mikið svona stuttu eftir veikindin. Ég þurfti að hægja aðeins á mér í kjölfarið,“ segir Fríða en Ísey skyrbar opnaði í mathöllinni á Selfossi 2. maí síðastliðinn eftir tveggja mánaða undirbúning.
Þess má geta að síðustu blóðprufur sem voru teknar í byrjun desember komu allar vel út hjá Fríðu og staðfesti þar með endanlega að hún er svo sannarlega búin að endurheimta heilsuna.
Man lítið eftir þessum tíma
Fríða segir að hún hafi ekki áttað sig almennilega á því sjálf þegar hún var veik hversu mikið veik hún var. „Ég hafði til dæmis sent skilaboð á vinkonu mínar sem ég man ekkert eftir að hafa sent henni. Ég var bara í einhverju móki. Maður er líka að reyna að halda kúlinu fyrir börnin sín og reynir kannski að sýnast minna veikur en maður er. En það er rosalega stutt á milli, það er alveg víst, þrátt fyrir að maður sé hraustur.“
„Það var fullt af fólki að veikjast á þessum tíma og ég er bara heppin að hafa náð mér af þessu. Líka þegar ég fékk súrefnið, þegar ég var farin að metta mjög illa, það leit ekki vel út. Þetta fer inn í reynslubankann að veikjast svona og maður lærir að taka ekki heilsunni sem sjálfsögðum hlut.“
Erfitt að geta ekki tekið þátt í hlaupum
Það er augljóst að Fríða hefur lagt mikið á sig til að endurheimta heilsuna en leiðin var hvorki auðveld né stutt. „Ég hef alltaf verið á fullu, verið í íþróttum og verið að hlaupa og gert ótrúlega mikið. Í sumar, þá langaði mig að taka þátt í hlaupum hérna á Selfossi, þó að það væru bara fimm kílómetrar eða tíu kílómetrar en gat það ekki. Ég mætti til að horfa á og hvetja aðra en mér fannst mjög erfitt að geta ekki tekið þátt sjálf, ekki einu sinni í fimm kílómetra hlaupi.“
Aðspurð hvort hún sé með markmið fyrir næsta ár þá segir Fríða að hún sé kannski ekki beint með markmið, því að hún vilji ekki pressa á sjálfa sig en hana langi til að hlaupa nokkur hlaup. „Ég er búin að vera að hlaupa núna og ef ég held því áfram þá mun ég klárlega taka þátt í keppnishlaupum á næsta ári. Ég yrði mjög ánægð ef ég myndi klára nokkur keppnishlaup eins og Reykjavíkurmarþonið og kannski Hengilinn og kannski í Vestmannaeyjum en ég er ekki búin að setja mér nein markmið.“
Gefst aldrei upp
Fríða þakkar keppnisskapinu fyrir að hafa ekki gefist upp þó að á móti hafi blásið og segir það drífa hana áfram. „Ég hef alltaf haft mikið keppnisskap. Frá því að ég var ung þá hef ég alltaf þurft að hafa fyrir öllu. Ég fékk ekkert gefins. Ég byrjaði að vinna þegar ég var 14 ára til að eiga fyrir takkaskóm. Ég held að það sé það sem hefur drifið mig áfram í lífinu, bæði í íþróttum, fótbolta og bara öllu. Að gefast ekki upp.“
Þegar Fríða tekur sér eitthvað fyrir hendur þá er hún staðráðin í að ná árangri og ekkert fær hana stöðvað. Gott dæmi er þegar hún þurfti í eitt skipti að fara á hestbaki á fótboltaæfingu því það var heyskapur heima á Uxahrygg og enginn gat skutlað henni. Þá var hún tíu ára.
Að endurheimta heilsuna hefur verið mikil þolinmæðisvinna fyrir Fríðu og heilsan kom alls ekki til baka af sjálfu sér. „Í sumar þurfti ég að taka skref aftur á bak til að geta tekið skref áfram. Og ég er mjög ánægð með það. Í sumar kom ég heim eftir vinnu og lá bara í sófanum og gerði bara ekki neitt því að ég hafði ekki einu sinni orku til að sinna börnunum mínum. Það var alveg þannig. Það er mjög gott að fá alla þessa orku til baka.“
Betur í stakk búin til að taka á móti áföllum
Fríða hefur ekki farið varhluta af áföllum í lífinu ekki frekar en aðrir og hefur hún verið dugleg að leita sér hjálpar til að vinna úr þeim. „Ég hef verið hjá sálfræðingi síðan í janúar 2014 þegar ég missti pabba minn og hef hitt hann reglulega síðan þá, ekki bara þegar það eru erfiðleikar. Með því að vera reglulega hjá sálfræðingi þá er maður líka meira tilbúinn til að taka á móti áföllum. Hálfum mánuði eftir að ég kem heim af spítalanum þá greinist mamma mín með krabbamein. Það var auðvitað erfitt fyrir taugakerfið en það er léttara að vinna úr því þegar maður finnur þetta jákvæða ljós fyrir ofan mann en ekki bara allt svart, þegar maður lendir í svona áfalli.“
„Eftir að ég varð veik þá var ég alveg rosalega hrædd um að fá streptókokka því að það var faraldur í gangi. Ég vissi að það var fullt af fólki á spítala með streptókokka. Svo fékk ég þá í sumar og varð ekkert svo rosalega veik. Ég kveið veikindunum og fann að kvíðinn jókst mjög mikið eftir veikindin – og það var ekki bara heilsukvíði. Skömmu eftir veikindin ferðaðist ég til dæmis til Englands með strákinn minn og fór að heimsækja Dagnýju vinkonu mína. Í fluginu til baka fékk ég bara kvíðakast og þá hafði ég ekki fengið kvíðakast í einhver þrjú ár. Þá var ég búin að ganga í gegnum tvö áföll á stuttum tíma. Í september í fyrra fór 5 mánaða dóttir mín í aðgerð, þannig að á fimm mánaða tímabili dundu á mér þrjú áföll sem var mjög erfitt.“
Mikilvægt að fjárfesta í andlegri heilsu
Fríða vill ekki gera of mikið úr dramatíkinni en leggur þó áherslu á að það sé mikilvægt að leita sér hjálpar þegar lífsins straumur verður of þungur.
„Það er fullt jákvætt í lífinu líka. Ég vil ekki alltaf horfa bara aftur á bak – þá kemst ég ekkert áfram. En ég kemst áfram því að ég vinn úr hlutunum andlega og sem er ótrúlega mikilvægt. Þetta var svo mikill feluleikur fyrir nokkrum árum að maður væri að fara til sálfræðings – þetta er það besta sem maður gerir fyrir sjálfan sig. Það tala margir um það hvað það er dýrt að fara til sálfræðings en þú ert bara að fjárfesta í andlegri heilsu sem skiptir mestu máli til að geta fara í gegnum lífið, upp og niður.“
„Hver hefur sinn bakpoka að bera og þess vegna er svo mikilvægt til að létta á andlegu heilsunni með því að vinna úr hverjum hlut sem er í þessum bakpoka. Því meira sem maður vinnur úr þessum hlutum, því betur líður manni.“
Fríða segir að það hafi gengið mjög vel að vinna úr kvíðanum sem blossaði upp eftir veikindin. „Ég er bara góð núna. Ég var orðin alveg góð í sumar. Ég veit alveg hvernig ég á að vinna með þetta. Ég er að fara í jóga og það er alls konar sem ég nota til að halda þessu niðri.“
Einn dagur í einu
En er Fríða með einhver skilaboð til fólks sem hefur misst heilsuna af einhverri ástæðu og vill endurheimta hana á ný?
„Aldrei gefast upp og hugsið jákvætt. Leitið í jákvæða punkta og ekki leyfa veikindunum eða því sem hefur gerst að hertaka hausinn því að þá er hausinn að vinna. Mamma er jákvæðasta manneskja í heimi þrátt fyrir að hún sé með krabbamein og maður getur ekki annað en verið jákvæður með henni. Auðvitað ganga allir í gegnum dali og fara niður en að nýta sér alla hjálp andlega, sálfræði, hlusta á jákvæð podcöst og fleira – og bara lifa í núinu. Einn dagur í einu og áfram gakk.“
Fríða segir að þessi lífsreynsla hafi klárlega breytt sýn hennar á lífið. „Maður tuðaði stundum áður yfir ótrúlegustu hlutum en núna er maður meira að einblína á þakklætið. Ég skrifa í þakklætisdagbók á hverjum degi og hef reyndar gert síðan ég var einstæð móðir. Maður skrifar í þessa bók í lok dags, þrjú atriði. Stundum er þakklætið fólgið í einföldum hlutum eins að maður fékk sér kaffibolla. Þegar maður fer að einblína meira á það sem maður þakklátur þá verða til fleiri hlutir til að þakka fyrir. Þetta snýst allt um hugarfarið. Hausinn er allt, þess vegna er mikilvægara að þjálfa hausinn, ég er búin að læra það,“ segir Fríða að lokum.