Kaup landsmanna á Rótarskotum hjá björgunarsveitunum um nýliðin áramót nægja til ræktunar skógar á 5-6 hekturum lands. Skógræktarstjóri vonar að björgunarsveitirnar og Skógræktarfélag Íslands haldi áfram að bjóða landsmönnum að kaupa Rótarskot um áramót og upp vaxi „Áramótaskógar“ um allt land.
Þetta kemur fram á heimasíðu Skógræktarinnar.
Rætt var við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra um aukna skógrækt í landinu í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær. Tilefnið var verkefni Landsbjargar og Skógræktarfélags Íslands sem efnt var til um nýliðin áramót að auk flugelda byðu björgunarsveitir landsins fólki að slá tvær flugur í einu höggi, styrkja starfsemi sveitanna og stuðla að aukinni skógrækt með því að kaupa svokölluð Rótarskot.
15.000 trjám plantað á Hafnarsandi í sumar
Fyrir hvert selt rótarskot verður gróðursett eitt tré á Hafnarsandi í Ölfusi þar sem er að hefjast mikil skógrækt á örfoka landi í samvinnu Landgræðslunnar, Skógræktarinnar og sveitarfélagsins Ölfuss. Svæðið er kallað Þorláksskógar og þar hefur nú verið afmarkað sérstakt svæði fyrir Rótarskot björgunarsveitanna þar sem á að vaxa upp svokallaður Áramótaskógur.
Aðspurður um þetta verkefni segist Þröstur vonast til að björgunarsveitirnar og Skógræktarfélag Íslands haldi áfram á sömu braut. Framtakið sé geysigott og honum skiljist að Rótarskotin hafi selst því sem næst upp. Upplagið í þessari fyrstu atrennu var 15.000 rótarskot og af því má ráða að í sumar verði gróðursett tré í um það bil fimm til sex hektara fyrirhugaðs Áramótaskógar á Hafnarsandi.