Rúmar 13 milljónir króna fóru í Selfossvirkjun

Á síðasta fundi framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar voru lagðar fram lokatölur vegna kostnaðar við undirbúning og rannsóknir vegna Selfossvirkjunar.

Heildarkostnaður vegna verkefnisins er tæpar 13,3 milljónir króna.

Áður hafði komið fram að kostnaður við skoðun á virkjunarkostum væri kominn upp í 10 milljónir og síðan hefur bætt í kostnaðinn. Helgi Sigurður Haraldsson, bæjarfulltrúi B-lista, óskaði því eftir því að allur kostnaður við skoðun Sjálfstæðismanna á virkjunarkostum í Ölfusá yrði tekinn saman og upplýsingar um hann lagðar fram í bæjarráði.

Í lok maí á þessu ári lagðist framkvæmda- og veitustjórn sveitarfélagsins Árborgar eindregið gegn því að farið verði í virkjunarframkvæmdir á Ölfusá við Efri-Laugardælaeyju þar sem niðurstaða Verkfræðistofu Suðurlands var að virkjanaáætlanirnar voru ekki raunhæfar hvorki hvað varðar arðsemi né tæknilega útfærslu.

Fyrri greinMarín vann þriðja árið í röð
Næsta greinJólasagnfræði í Húsinu