Rúmar 2 milljónir króna söfnuðust í Bleika boðinu

Hólmfríður Skaftadóttir, Valgerður Magnúsdóttir, Brynja Janusdóttir og Laufey Valdimarsdóttir skemmtu sér vel í Bleika boðinu. Ljósmynd/Aðsend

Um 350 manns mættu í Bleika boðið sem haldið var í sjötta sinn síðastliðinn föstudag á Hótel Selfossi.

Bleika boðið er stærsti fjáröflunarviðburður Krabbameinsfélags Árnessýslu. Fjáröflun kvöldsins fólst í sölu happdrættismiða og söfnuðust rúmar tvær milljónir króna sem renna óskiptar í starfsemi félagsins.

„Við erum virkilega ánægð með hvernig til tókst og ég er þakklát öllum sem gerðu okkur kleift að upplifa þennan stórkostlega viðburð með öllum þeim fjölda sem sótti boðið,“ segir Svanhildur Ólafsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.

Um 350 manns mættu í Bleika boðið sl. föstudag. Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægur viðburður í samfélaginu
Svanhildur segir að það sé ákveðið spennufall eftir mikinn undirbúning. „Við erum mikið stolt af því hversu stór og mikilvægur viðburðurinn er orðinn í samfélaginu og erum strax farin að hlakka til næsta árs. Við lærum eitthvað nýtt á hverju ári og margar hugmyndir sem við hlökkum til að vinna með til að gera Bleika boðið enn betra að ári.“

„Veitingamaðurinn Tommi Þórodds og hans öfluga starfsfólk bauð gestum upp á mat og fyrsta flokks þjónustu allt kvöldið. Salurinn var fallega bleikur og vel skreyttur af stelpunum í tilefni.is og vakti blöðruboginn verðskuldaða athygli, fólk skemmti sér við myndatökur í myndakassanum frá Glansmyndum og dansaði svo fram eftir kvöldi með Grétari Matt tónlistarmanni sem náði að brúa tónlistarsöguna milli margra kynslóða.“

Katrín Ölversdóttir og Helga Sigurðardóttir skemmtu sér vel í Bleika boðinu. Ljósmynd/Aðsend

Happdrætti og uppboð
Svanhildur segir að happdrættið hafi gengið vel fyrir sig. „Margir fengu veglega vinninga. Einnig voru uppboð á listaverkum, skarti og hótelgistingum og var gaman að finna áhuga fólksins á því sem í boði var.“

„Krabbameinsfélag Árnessýslu þakkar öllum þeim sjálfboðaliðum sem lagt hafa viðburðinum lið en fjölmargir komu bæði að skipulagi og framkvæmd og styrktu félagið með sínu vinnuframlagi,“ segir Svanhildur ennfremur.

Fyrri greinMummi Týr sigraði í prófkjöri Pírata
Næsta greinStórt tap á heimavelli