Bólusetning barna og unglinga í Árnes- og Rangárvallasýslum síðastliðinn miðvikudag gekk vonum framar, að sögn Elínar Freyju Hauksdóttur, umdæmislæknis sóttvarna á Suðurlandi.
Á miðvikudag var öllum 12-15 ára grunnskólabörnum í báðum sýslunum boðið upp á bólusetningu í félagsheimilinu Þingborg í Flóahreppi.
Að sögn Elínar Freyju mættu rúmlega 700 börn af rúmlega 1300 börnum sem voru boðuð, sem er um 55% mæting.
„Þetta gekk vonum framar. Börnin stóðu sig rosalega vel og eiga hrós skilið fyrir dugnaðinn,“ sagði Elín Freyja í samtali við sunnlenska.is. „Þeir sem komust ekki með börnin sín í bólusetninguna, geta komið með þau í næsta opið hús sem verður miðvikudaginn 25. ágúst kl. 16:00-16:30 í Þingborg,“ bætir hún við.