Rúmlega þriggja milljarða viðsnúningur í rekstri Árborgar

Selfoss. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Rekstrarafkoma Sveitarfélagsins Árborgar árið 2024 er sú besta í fjölda ára að því er fram kemur í tilkynningu frá sveitarfélaginu.

Ársreikningur sveitarfélagsins var lagður fram til staðfestingar í bæjarráði í morgun og vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn næstkomandi mánudag.

Rekstrarniðurstaða A og B-hluta er jákvæð um rúmlega 3,2 milljarða króna en áætlanir gerðu ráð fyrir um 115 milljón króna neikvæðri niðurstöðu. Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um tæplega 1,9 milljarð króna en áætlanir gerðu ráð fyrir um eins milljarðs króna neikvæðri niðurstöðu.

„Um er að ræða eina bestu rekstrarniðurstöðu sveitarfélagsins frá upphafi sem kemur verulega á móti hallarekstri undanfarinna ára. Árangurinn rennir sterkari stoðum undir fjárhagsáætlun ársins og undirbúning áætlunar næstu ára. Einskiptis tekjur vegna álags á útsvar og sölu eigna hafa umtalsverð áhrif á jákvæða rekstrarniðurstöðu en áfram verður megin áskorunin að gera A-hluta sveitarfélagsins sjálfbæran á næstu árum,“ segir í tilkynningunni.

Veltufé frá rekstri rúmlega tvöfaldast milli ára og er tæpir 4,4 milljarðar króna og handbært fé eykst um tæplega tvo milljarða króna á milli ára og endar í rúmlega 2,3 milljörðum króna í A og B-hluta.

„Niðurstaða ársreikningsins er mjög ánægjuleg og vil ég óska íbúum, starfsmönnum og kjörnum fulltrúum til hamingju með árangurinn. Það er ánægjulegt að aðgerðir bæjarstjórnar og starfsmanna undanfarin þrjú ár hafi skilað árangri á skemmri tíma en áætlað var. Lausafjárstaða sveitarfélagsins styrkist og skuldaviðmið lækkar verulega milli ára þrátt fyrir umfangsmiklar fjárfestingar og viðhald innviða,“ segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri.

„Stefna bæjarstjórnar Árborgar var að taka á rekstrarvandanum með ábyrgum hætti og það er að takast. Við munum áfram sýna ábyrgð í rekstrinum með það að markmiði að skapa aðstæður til lækkunar annarra álaga, líkt og fasteignagjalda. Íbúar eiga alltaf að njóta ávinningsins á endanum m.a. í formi lægri gjalda og álaga,“ bætir Bragi við.

Skuldaviðmið lækkar í 107,6%
Skuldir við lánastofnanir lækka milli ára en heildarskuldir og skuldbindingar aukast lítillega vegna gjalddaga á skammtímaláni sem verður endurfjármagnað á yfirstandandi ári. Skuldaviðmið lækkar í 107,6% úr 147,4% og er sveitarfélagið komið vel undir lögbundið hámark sem er 150% samkvæmt sveitarstjórnarlögum.

Sala byggingarréttar fyrir land í Björkurstykki kemur inn í ársreikninginn og skilar um 700 milljónum króna umfram áætlanir þegar gert er ráð fyrir sölu eigna og byggingarréttar. Aðgerðir til hagræðingar skila sér í jákvæðri niðurstöðu flestra málaflokka og íbúafjölgun umfram áætlanir ásamt álaginu eykur útsvarstekjur.

Fyrri greinÓli og Inga hlutu hvatningarverðlaun garðyrkjunnar
Næsta greinÍda snýr aftur