Hjónin Katrín Ösp Jónasdóttir frá Selfossi og Páll Óli Ólason frá Litlu-Sandvík fluttu ásamt dætrum sínum tveimur til Auckland á Nýja-Sjálandi í janúar síðastliðnum.
Blaðamaður sunnlenska.is heyrði í Katrínu seint á Þorláksmessukvöldi. Þá var kominn aðfangadagur hjá þeim og mikill jóla ærslagangur í dætrunum, þeim Aldísi 6 ára og Önnubellu 4 ára.
„Það er komið hádegi hjá okkur núna. Kallinn fékk frí á aðfangadag en aðfangadagur er ekkert svo stór dagur hérna úti. Það er aðallega jóladagur sem er stór, svona eins og í Ameríku. Við byrjuðum aðfangadag á að ég tók stelpurnar með mér á æfingu og leyfði kallinum að sofa. Ég hitti fólk og knúsaði það „merry christmas“. Stelpurnar elska að koma með mér í ræktina.“
Skrítið að fá ekki að knúsa fólkið sitt
„Stelpurnar eru mjög spenntar fyrir jólunum en það er mjög skrítið að vera ekki að gefa pakka. Þær fá auðvitað pakka frá okkur en það er rosalega dýrt að senda pakka þannig að það eru engar gjafir að heiman og við vorum ekkert að senda neitt heim heldur. En þær eru samt alveg jafn spenntar fyrir jólunum eins og áður. En það er skrítið að fá ekki að knúsa fólkið sitt. Ég er bara búin að vera að senda öllum skilaboð, hringja í ömmu og svona.“
Það var engin skata á Þorláksmessu hjá Katrínu og fjölskyldu eins og hjá mörgum Íslendingum. „Við fengum okkur sushi á Þorláksmessu, þær elska sushi. Við erum með þá hefð að fá okkur sushi á Þorlák. Pabbinn var að vinna. Svo áttu þær erfitt með að fara að sofa því að jólasveinninn var að koma en það er bara einn jólasveinn hér.“
Þakklát fyrir tæknina
Katrín segir að dæturnar séu mjög spenntar fyrir jólunum en þau fjölskyldan voru á leiðina á ströndina þegar sunnlenska.is heyrði í henni.
„Kallinn ætlar að elda skinku og svo förum við á ströndina að hitta alla. Það er alveg sami spenningurinn fyrir jólunum þó að við séum hér núna.“
Katrín segir að vissulega þau sakni fólksins síns um jólin. „Sem betur fer höfum við þessa tækni og hún er búin að koma sér mjög vel. Við erum búin að heyra í fólkinu okkar og senda knús. Þegar maður á börn þá snúast jólin um þau, þannig að maður hefur ekki alveg tíma til að pæla mikið í þessu núna. Ég held að þetta komi frekar yfir okkur þegar við knúsum alla í febrúar þegar við komum heim. Það er mikið að gerast hér og alltaf nóg að gera með krökkunum.“
Hafði gott af því að upplifa eitthvað alveg nýtt
En hvað fær Íslendinga til að flytja hinum megin á hnöttinn, þar sem það er sól og sumar þegar það er vetur og kuldi á Íslandi?
„Þetta kom þannig til að maðurinn minn er læknir og er í sérnámi í bráðalækningum heima á Íslandi. Hluta af sérnáminu þarf hann að taka á öðru háskólasjúkrahúsi en Landspítala og það er bara eitt slíkt á Íslandi, þannig að hann þurfti alltaf að fara erlendis. Þau voru fleiri í hans sérnámi sem sóttu um í Ástralíu og Nýja-Sjálandi og það endaði með því að þau voru fimm sem fengu stöðu í Auckland þar sem við erum nú.“
„Ég er persónulega mjög heimakær en hef vitað í mörg ár að það kæmi að þessu, að við myndum flytja erlendis vegna þessa áfanga í náminu hans. Ég er ekki ævintýragjörn en það hefur alltaf verið eitthvað innra með mér sem hefur sagt mér að ég hefði gott af því að upplifa eitthvað alveg nýtt.“
Hafurtaskið til tengdamömmu
Aðspurð hvernig undirbúningur fyrir ferðina hefði gengið segir Katrín að hann hafi verið í raun lítill – þangað til hann var rosalega mikill.
„Við eigum íbúð í Reykjavík sem við fundum leigjendur fyrir tiltölulega fljótt. Við fluttum allt okkar hafurtask til tengdamömmu á nokkrum dögum og fórum bara með ferðatöskur út. Það voru alls kyns skjöl sem þurfti að fylla út rétt fyrir brottför þar sem að þau þurftu að vera ný og það var erfitt, verandi að pakka og að kveðja alla, og það í desember í þokkabót.“
Þriggja og hálfs sólarhrings ferðalag
Auckland er stærsta borg Nýja-Sjálands með 1,5 milljón íbúa. Frá Reykjavík til Auckland eru hvorki meira né minna en 16.783 km. Það segir sig sjálft að ferðalagið þangað er bæði langt og strangt.
„Ferðalagið í það heila var í kringum þrjá og hálfan sólarhring en það var viljandi lengra. Fyrsti áfangi var þriggja hálfs tíma flug frá Íslandi til Helsinki í Finnlandi. Þar biðum við í átta tíma áður en við tók 12 og hálfs tíma flug til Singapúr. Þar gistum við í tvær nætur áður en við tók tíu tíma flug frá Singapúr til Auckland á Nýja-Sjálandi.“
Átta klukkustundir á flugvelli í Helsinki
Katrín segir að þau hjónin hafi verið stressuð fyrir þessu ferðalagi vegna dætranna. „Við þurftum til dæmis að bíða á einum flugvelli í átta klukkustundir. Eftir á þá var þetta heljarinnar ævintýri fyrir þær og þær tala ennþá um þessar átta klukkustundir á flugvellinum í Helsinki, hvað það var gaman. Ferðalagið tók mun meira á okkur,“ segir Katrín og hlær.
Katrín segir að tilfinningin að vera loksins komin á leiðarenda hafi verið óraunveruleg. „Fyrstu vikurnar fóru annars vegar í Airbnb-líf með smá ferðalagi og ströndinni og hins vegar í frekar stressandi líf að bíða eftir vegabréfsáritun og finna íbúð sem við myndum sem við myndum njóta okkar í. Það var líka skrítið að hugsa til þess að hér yrðum við í meira en ár en ekki bara í þessar klassísku tvær vikur sem maður er vanur þegar maður fer erlendis í frí.“
Heima er þar sem mamma og pabbi eru
Að sögn Katrínar hefur stelpunum gengið vel að aðlagast lífinu úti. „Krakkar eru alveg hreint magnaðir. Sú eldri hefur blómstrað hér, enda á fyrsta ári í grunnskóla. Hún var spennt og tilbúin í nýja reynslu og áskoranir. Hún talar orðið þrjú tungumál og á marga, alltof marga, vini.“
„Sú yngri er heimakærari en við komumst að því að heima er bara þar sem mamma og pabbi eru. Hún á erfiðara með að slíta sig frá okkur en það spilar kannski inn í að hún er „covid-barn“. Hún hefur samt sem áður myndað dýrmæt tengsl og á nána vini í leikskólanum hér, vill oft ekki fara þaðan þó hún eigi erfitt við að skilja við okkur að morgni til.“
Búin að eignast vini til lífstíðar
„Fyrir okkur hjónin er þetta er búið að vera rússíbani, heimþrá og ævintýri allt í bland. Við erum bæði náin okkar nánustu, félagsverur og vorum í okkar draumavinnum heima. Við höfum verið saman í 15 ár, gengið í gegnum alls konar svo þetta hefur gengið vel.“
„Við erum bæði spennt að koma heim en á sama tíma höfum við lifað frábæru lífi hér sem verður erfitt að kveðja. Við komum út með öðrum fjölskyldum og höfum við verið sem ein stór fjölskylda hér sem er afar dýrmætt, og hér höfum við eignast vini til lífstíðar.“
„Við höfum bæði verið í ákveðnum baklás að kynnast heimamönnum of náið því við vissum að það kæmi að kveðjustund. Já, þetta er mikill rússíbani. Ætli mér hafi ekki fundist það erfiðast, að kynnast frábæru fólki sem ég mun svo mögulega ekki hitta aftur. Það væri allt öðruvísi ef við hefðum verið lengur en eitt ár.“
„Það hefur komið okkur á óvart hvað tíminn líður hratt, hvað það getur verið hollt fyrir sálina að fara hægar inn í daginn og hvað það að keyra vinstra megin lærist fljótt.“
Erfitt en líka hollt að fara frá fjölskyldunni
Því er auðsvarað hvers þau sakna mest frá Íslandi. „Það er auðvitað fjölskyldan. Við hjónin erum bæði náin okkar fólki þannig að það var erfiðast að fara frá þeim en þó jafnframt hollt.“
„Við söknum líka bæði vinnunar okkar heima. Ég hef sjálf ekki verið að vinna síðasta árið sem er búið að vera áskorun. En þar sem að þetta var aðeins ár þá ákváðum við að ég myndi fókusa á heimilið og fjölskylduna og hjálpa stelpunum að aðlagast nýju umhverfi.“
„Að því sögðu að þá spöruðum við fyrir þetta ár. Ef tíminn hefði verið lengri hér úti þá myndi ég samt sem áður ráðleggja fólki að spara fyrir óvissu fyrsta ársins og gefa sér tíma í að koma sér inn í nýtt umhverfi.“
Framúrskarandi leikvellir og enski boltinn á nóttunni
Katrín segir að Nýja-Sjáland hafi ýmislegt fram yfir Ísland. „Númer 1, 2 og 3 er veðrið. Hér í Auckland er þægilega hlýtt veður, alla jafna ekki of heitt en getur samt verið rosalegt. Hitastigið yfir veturinn fór svo kannski mest niður í 5 gráður en við höfum ekki séð hitastig undir frostmarki hérna. Annað eru líka leikvellirnir hérna úti. Þeir leggja mikið upp úr því að hafa þá veglega.“
Ísland hefur þó ýmislegt líka fram yfir Nýja-Sjáland eins og til dæmis vatnið. „Við þurfum að sía vatnið úr krananum hér. Ísland hefur líka rafræn skilríki fram yfir Nýja-Sjáland, þeir eru aðeins á eftir í sumu hér. Eins með skólamatinn. Ég þarf að gera nesti á hverjum degi fyrir skólastelpuna mína, er samt orðin vön því og það er ákveðin ró í að vita nákvæmlega hvað hún er að borða. Svo auðvitað er öðruvísi fyrir kallinn að enski boltinn er í beinni á nóttunni hér.“
Mikil fjölmenning og engin pressa
Aðspurð hver sé mesti munurinn á þessum tveimur löndum segir Katrín að veðrið komi fyrst upp í hugann. „Hér er hlýtt loftslag yfir mestallt árið þannig að þú kemst upp með að vera í peysu eða bol mestan part ársins.“
„Á Nýja-Sjálandi, sérstaklega í Auckland þar sem við búum, er einnig mikil fjölmenning. Hingað flytur fólk frá hinum Kyrrahafseyjunum, Suðaustur-Asíu og Indlandi til viðbótar við þá sem flytja hingað frá Bretlandi. Í Suður-Auckland er svo fjölmennasta byggð fólks frá Pólýnesíu. Svo má ekki gleyma Maori sem eru þeir sem bjuggu hér fyrir komu Bretana. Mikið er lagt upp úr þeirra kúltúr útum allt. Þessu fylgir því að hér er fagnað fleiri hátíðum yfir árið.“
„Það eru því ekki eins mörg samfélagsleg viðmið, sem hentar okkur frábærlega. Það er ekki nein pressa að halda upp á neitt en þú tekur þátt í því sem þú vilt og hefur tíma fyrir.“
„Eitt sem mér dettur í hug er að það er leyfilegt að koma með köku eða sætindi á afmælinu sínu í skólann. Það er þá komið með fyrir allann bekkinn og jafnvel kemur afmælisbarnið með litlar gjafir handa öllum! Það eru ekki allir sem gera þetta en það er greinilega mikil gjafaorka í sumum menningarheimum. „Sælla er að gefa en þiggja”. Mér finnst það skemmtilegt en börnin mín eru ekki með ofnæmi eða annað, gæti verið mjög flókið fyrir marga og get ímyndað mér að margir væru ekki sáttir með þetta fyrirkomulag sem ég skil mæta vel.“
Vinsælt að fara á ströndina um jólin
Sem fyrr segir fékk Páll Óli frí á aðfangadag en er annars að vinna öll jólin. „Nýsjálendingurinn heldur sín jól á jóladag þannig að það var lítið mál að fá frí á aðfangadag. Þar sem við höfum enga hefð hérna úti er planið að við Íslendingarnir hittumst og líklegast verður farið á ströndina með samlokur og fleira.“
„Fyrir það fyrsta eru jólin öðruvísi hér en heima vegna þess að hér er sumar. Eins og heima hittast fjölskyldur í mat yfir jólahátíðina nema hvað að hérna er vinsælt að fara á ströndina og grilla. Það eru vissulega amerísk áhrif hér en á sama tíma er menningin víð svo margir hér halda ekki upp á þau. Fólk gerir bara sitt.“
Mikil úti-menning
Fjölskyldan kemur aftur heim til Íslands um miðjan febrúar 2025. Aðspurð hvort þau muni flytja einhverja siði með sér heima segir Katrín að þau vonist til að vera meira úti.
„Mig langar að segja að ég muni vera meira úti, taka með nesti og eyða heilu dögunum í útiveru. Veit ekki hversu raunhæft það er. Það er mikil hefð að fjölskyldur eyði deginum saman í garði, á strönd eða á leikvelli með nesti eða jafnvel grilli þar, með teppi og allt til alls. Maður á eftir að sakna þessara daga.“
Þar með var Katrín rokin niður á strönd í 24 stiga hita til að halda upp á jólin með fjölskyldunni sinni, laus við allar áhyggjur af appelsínugulum veðurviðvörunum, annað en Íslendingarnir heima á Íslandi.