Stór fólksflutningabíll, fullur af erlendum ferðamönnum, fauk út af þjóðveginum við Reynisfjall, skammt upp af Vík eftir hádegið í dag.
Bíllinn hélst á hjólunum og allir sluppu ómeiddir og voru farþegarnir fluttir til Víkur. Björgunarsveitin Víkverji kom á staðinn á öflugum björgunarbíl og dró rútuna upp á veginn.
Myndirnar sem fylgja eru teknar þegar búið er að draga rútuna upp á veginn aftur. Að sögn Þóris N. Kjartanssonar, sem sendi okkur myndirnar, voru slæm en mjög dæmigerð skilyrði á vettvangi sem oft skapast á þessu svæði, snjór, hálka og krapi og snarpar vindhviður.

