Lítil rúta valt út af Suðurlandsvegi fyrir neðan Hveradali á tíunda tímanum í morgun. Tilkynning um slysið barst klukkan 09:38 og var hópslysaáætlun virkjuð.
Tuttugu manns voru í rútunni, erlendir ferðamenn, og sluppu allir óslasaðir. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að búið sé að koma öllum farþegum rútunnar í skjól í Hellisheiðarvirkjun, þangað sem önnur rúta sækir þá.
Rannsókn á tildrögum slyssins er í höndum lögreglunnar á Suðurlandi. Mikil hálka er á vettvangi og eru ökumenn hvattir til að aka gætilega.