Lítil rúta með ellefu farþegum valt við Langsjó í V-Skaftafellssýslu um miðjan dag í dag. Farþegarnir hlutu einungis minniháttar meiðsl og er björgunaraðgerðum lokið.
Í samtali við fréttastofu RÚV sagði Jón Hermannsson, björgunarsveitarmaður að björgunarsveitir frá Kirkjubæjarklaustri, Vík, Hvolsvelli og Hellu hefðu verið allar kallaðar út vegna veltunar um klukkan hálffjögur í dag.
Ekki hafi legið strax fyrir hvernig ástand farþega eða hvað margir þeir væru. Þrátt fyrir að ekki sé búið að opna veginn að Langasjó þá hafi björgunarsveitir verið fljótar á vettvang. Þær voru komnar tveimur tímum eftir útkall.
Jón sagði að veður hefði verið gott á svæðinu og enginn hefði verið alvarlega slasaður. Rútan hefði oltið á hliðina og farþegar hefðu komið sér fyrir og beðið björgunarsveita. Aðgerðum á svæðinu er lokið og farþegar komnir til byggða.