Rútuslys í Grafningnum

Mikil mildi þykir að ekki hafi farið verr þegar rúta með hátt í sjötíu ungmennum fór útaf Grafningsvegi um klukkan sjö í kvöld.

Rútan var á leið niður Hengilinn á Nesjavallaleið þegar hún missti bremsurnar samkvæmt heimildum sunnlenska.is. Við vegamótin á Grafningsvegi fór rútan fram af veginum og niður háan vegkant. Ökumaðurinn náði að halda rútunni á hjólunum og koma þannig í veg fyrir stórslys.

Í bílnum voru 68 farþegar, hópur unglinga úr Kópavogi á leið á Úlfljótsvatn. Fimm þeirra kvörtuðu undan eymslum og einn var fluttur á slysadeild í Reykjavík en meiðsli hans eru ekki talin alvarleg. Hann kvartaði undan eymslum í baki. Rútur frá Selfossi komu á vettvang og selfluttu hópinn á Úlfljótsvatn. Krakkarnir bera sig vel, ætla að halda hópinn, en fulltrúar Rauða krossins munu ræða við þau þegar þangað kemur.

Allt tiltækt lögreglu, læknar og sjúkralið frá Selfossi var kallað á vettvang ásamt sjúkrabílum úr Reykjavík ásamt því að hópslysaviðbúnaður var virkjaður.

Rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi er á vettvangi ásamt bíltæknifræðingi vegna rannsóknar málsins.

rutuslys2_180412gk_734922346.jpg
Vettvangur slyssins við Selkletta ofan við Nesjahraun. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinÁrborg og MS standa að mjólkuriðnaðarsafni á Selfossi
Næsta greinSögubók Umf. Þórs orðin hnausþykk