Hreppsnefnd Hrunamannahrepps lýsir yfir verulegum vonbrigðum með þá óheillavænlegu ákvörðun að fréttaritara RÚV á Suðurlandi hafi verið sagt upp störfum.
„Fréttaflutningur af Suðurlandi mun óhjákvæmilega skerðast verulega og það veldur ójafnræði milli landshluta. Fréttaritari RÚV á Suðurlandi hefur staðið sig með prýði og sent frá sér fjölbreyttar og jákvæðar fréttir sem almenn ánægja hefur ríkt með,“ segir í bókun sem samþykkt var á fundi hreppsnefndar í gær.
„Um er að ræða klára þjónustuskerðingu og vanvirðingu við hagsmuni Suðurlands og landsbyggðarinnar sem ekki verður látin ótalin. RÚV er ekki til bara fyrir höfuðborgarsvæðið heldur landið allt og staðkunnugir fréttaritarar eru ómetanlegir fyrir hinar dreifðu byggðir. Sunnlendingar greiða útvarpsgjald eins og aðrir,“ segir ennfremur í bókuninni.
Hreppsnefnd Hrunamannahrepps skorar á fréttastjóra og yfirstjórn RÚV að endurskoða ákvörðunina því vandséð er að henni fylgi nokkur hagræðing.