Sæðistöku og útsendingu hrútasæðis frá Sauðfjársæðingastöð Suðurlands lauk rétt fyrir jól. Alls voru sendir úr skammtar í liðlega 22.000 ær sem er um 1.000 skömmtum fleira en í fyrra.
Á heimasíðu búnaðarsambandsins kemur fram að illa gekk að koma sæðinu á áfangastaði vegna ótíðar og því má þakka fyrir ef næst sami fjöldi af sæddum ám og í fyrra.
Nokkrir hrútanna voru erfiðir í sæðistöku m.a Bursti frá Hesti sem gaf einungis sæði fyrstu dagana. Drumbur frá Bjarnastöðum gaf lítið sæði fyrri hluta tímabilsins en fór heldur skánandi þegar leið á. Sá hrútur sem mesta notkun fékk var Kölski frá Svínafelli en sæði úr honum var sent í 2.065 ær.
Næstir komu Jóker frá Laxárdal með útsent sæði í 1.795 ær, Garri frá Stóra Vatnshorni með í 1.715 ær, Danni frá Sveinungsvík með sæði í 1.555 ær og Höfðingi frá Leiðólfstöðum með sæði í 1.540 ær.
Sá kollótti hrútur sem mesta notkun fékk var Radix frá Hjarðarfelli með útsent sæði í 965 ær.