„Ég er að ítreka umsókn mína síðan fyrir einu og hálfu ári um að fá að setja upp tvær vindmyllur í landi Vorsabæjar. Fyrri sveitarstjórn afgreiddi aldrei það mál.
Nú vonast ég til að ný sveitarstjórn afgreiði málið á jákvæðan hátt til að koma upp einhverri nýrri atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu,“ segir Eiríkur Þórkelsson á Vorsabæ I á Skeiðum um umsókn sína hjá sveitarstjórn.
Eiríkur segir að um samskonar myllur sé að ræða og settar hafa verið upp í Þykkvabænum.
„Ég er að skoða ýmsa möguleika með nýtinguna á rafmagninu. Ég er spenntur að sjá hvaða afgreiðslu umsókn mín fær í þetta skipti, hvort það skiptir máli að vera einstaklingur sem sækir um eða fyrirtæki eins og Landsvirkjun með sínar vindmyllur á Hafinu,“ bætir Eiríkur við.