Bæjarfulltrúar S-listans í Árborg lýsa yfir vonbrigðum sínum með vinnubrögðin hjá meirihluta D-lista við undirbúning á kaupum félagsaðstöðu eldri borgara á Selfossi.
Í bókun sem Arna Ír Gunnarsdóttir og Eggert Valur Guðmundsson lögðu fram á fundi bæjarstjórnar í gær segir að bæjarfulltrúar hafi í sameiningu unnið að heilindum í fjárhagsáætlunargerð í haust og talið að þar væri allt upp á borðum.
„Því verður það að teljast einkennilegt að fá kynningu á 500 milljóna króna fjárfestingu, sem virðist hafa verið unnið að í allt haust, rétt áður en fjárhagsáætlunin er lögð fram,“ segir í bókuninni.
„Þrátt fyrir að allir bæjarfulltrúar hafi lengi talað fyrir mikilvægi þess að stækka félagsaðstöðu fyrir eldri borgara á Selfossi þá lýsa undirritaðir bæjarfulltrúar [Arna Ír og Eggert] yfir miklum vonbrigðum með vinnubrögðin hjá meirihluta D-lista við undirbúning á kaupum á nýrri félagsaðstöðu.“