Mennirnir tveir sem handteknir voru í fyrrinótt upplýstu við yfirheyrslur hjá lögreglu í gær að þriðji maðurinn, sem slasaðist alvarlega, hafi ekið torfærubíl sem valt við Flúðir þá um nóttina.
Sá slasaði er ekki í lífshættu en hann brotnaði illa í andliti að sögn lögreglunnar á Selfossi. Mennirnir, sem eru á fertugs- og fimmtugsaldri, voru allir ölvaðir.
Þeir voru þrír í tveggja sæta bíl og á vettvangi neituðu þeir að upplýsa um hver ók og hver tildrög slyssins voru. Þeir tveir sem slösuðust ekki voru því handteknir.
Í ljós hefur komið að mennirnir ollu töluverðum gróðurskemmdum í hlíðunum fyrir ofan sumarbústaðahverfið þar sem slysið átti sér stað.