Sækja fjölda veikra ferðamanna inn í Emstrur

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Björgunarsveitir á Suðurlandi eru þessa stundina að flytja fjölda ferðamanna sem hafa veikst undanfarinn sólarhring, flestir í Emstruskála. Rétt fyrir miðnætti í gær voru björgunarsveitir kallaðar út vegna hóps skólabarna í skálann í Emstrubotnum. Þar voru að minnsta kosti 15 börn orðin veik af tæplega 50 manna hóp. Komið var með skólakrakkana niður á Hvolsvoll um sjö leitið í morgun.

Björgunarsveitir voru varla komnar í hús þegar beiðni kom um að sækja fleiri inn í Emstrur sem voru orðnir veikir. Einnig bárust tilkynningar um veikindi í Básum.

Björgunarsveitirnar Dagrenning á Hvolsvelli, Flugbjörgunarsveitin á Hellu og Bróðurhöndin undir Eyjafjöllum fóru því af stað aftur. Í morgun var svo einnig tilkynnt um göngumann í Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi sem hafði snúið sig á ökkla og treysti sér ekki til að halda áfram göngu. Björgunarsveitin Víkverji í Vík í Mýrdal fór í það verkefni.

Brottflutningur veikra ferðamanna er unnin í samráði við Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Sóttvarnalækni, sem meðal annars er að flytja aukinn sóttvarnabúnað austur á Hvolsvöll. Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að sóttvarnabúnaður sé í tækjum björgunarsveita sem eru í verkefninu, en ljóst að fljótt gengur á hann þegar þetta margir hafa sýkst.

Aðgerðir snúa einnig að því að ná til ferðamanna sem lögðu af stað fótgangandi frá Emstrum niður í Þórsmörk í morgun, því erfitt getur reynst að sækja fólk á þá gönguleið.

Fyrri greinRancez með þrennu í markaleik – Árborg upp í 2. sætið
Næsta greinPatrekur semur við Selfoss