Rétt upp úr klukkan þrjú í dag voru björgunarsveitir á Suðurlandi kallaðar út vegna göngumanns á gönguleiðinni yfir Fimmvörðuháls sem er slasaður á fæti.
Maðurinn er staddur ofarlega á Morinsheiði við Heljarkamb og hjá honum er samferðafólk.
Björgunarsveitafólk er nú á leiðinni upp Fimmvörðuháls til að huga að manninum. Mögulega þarf að bera hann niður gönguleiðina eða upp á hálsinn til móts við sexhjól. Aðstæður til burðar á sjúklingum á þessum slóðum geta verið erfiðar þar sem gönguleiðin liggur um kletta og bratta hryggi.
UPPFÆRT KL. 18:01: Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti manninn en þetta var fyrsta útkall nýjustu þyrlu Gæslunnar, TF-GRÓ.