Ungir félagar í hestamannafélaginu Sindra í Vík tóku sig til um síðustu helgi og hreinsuðu í kringum dvalarheimilið Hjallatún í Vík.
Krakkarnir eru að safna fé fyrir ferð á heimsmeistaramót íslenska hestsins í Berlín í ágúst og hafa að sögn Petru Kristinsdóttur, formanns Sindra verið dugleg við að bjóða ýmsa þjónustu til að safna peningum í ferðina.
„Þetta eru tíu krakkar sem fara og fjórir fullorðnir með,“ segir Petra. Hún segir unga hestamenn vera stóran hluta félagsmanna í Sindra. „Það eru upp í 30 krakkar sem keppa hér á mótum,“ segir hún.
Krakkarnir halda söfnuninni áfram og hafa m.a. auglýst að þau bjóði einstaklingum að hreinsa garða og fleira. „Fólk hefur tekið þeim vel,“ segir Petra.