Í sumar fannst talsverð mygla í kjallaranum í leikskólanum Álfaborg í Reykholti í Biskupstungum, þegar átti að skipta um dúk þar. Vegna þessa þurfti að loka húsnæðinu og flytja starfsemina tímabundið í Bláskógaskóla í Reykholti.
Um leið þurfti að henda mikið af leikföngum og munum úr leikskólanum og tjónið varð all verulegt fyrir skólann.
Til stendur að efna til söfnunar svo hægt sé að styðja kaup á nýjum leikföngum og kennslutækjum sem vantar til leikskólastarfsins. Halda á söfnunar- og skemmtikvöld þann 27. október þar sem fram koma ýmsir aðilar auk þess sem uppboð verður haldið á munum sem gefnir hafa verið til styrktar verkefninu. Um leið er því fagnað að 30 ár eru frá stofnun leikskólans.