Safnaði góðri upphæð í Gugguhlaupinu

Guðbjörg afhendir Erlu styrkinn til Krabbameinsfélags Árnessýslu. Ljósmynd/Aðsend

Guðbjörg Þóra Guðmundsdóttir stóð fyrir góðgerðarhlaupinu Guggan 2024 heima í sveitinni sinni á Kirkjuferju í Ölfusi, föstudaginn 26. júlí síðastliðinn. Er þetta í annað sinn sem Guðbjörg stendur fyrir slíku styrktarhlaupi en fyrra hlaupið var fyrir fimm árum.

Guðbjörg greindist með leghálskrabbamein fyrir 10 árum og tók þá ákvörðun um að standa fyrir styrktarhlaupi á fimm ára fresti. Hlaupaleiðin er 10 kílómetra löng og hentar öllum sem vilja taka þátt því öllum er frjálst að fara þá vegalend sem þeir treysta sér til.

Þátttaka í hlaupinu var virkilega góð og voru 95 manns sem hlupu í ár og vel yfir 100 manns sem komu til að styrkja viðburðinn. Elsti þátttakandinn var 69 ára og yngsti eins árs. Guðbjörg naut ómetanlegs stuðnings fjölskyldu sinnar og vina við undirbúning og framkvæmd, auk þess sem Glacial Water í Þorlákshöfn styrkti viðburðinn með vatni á drykkjarstöðvumn en einnig var boðið uppá aðra drykki og SS pylsur að hlaupi loknu. Þau sem komu fyrst í mark í karla og kvennaflokki fengu farandbikara. Aðrir sem gengu eða hlupu fengu verðlaunapeninga sem fjölskyldan bjó til úr trjágreinum.

Þátttökugjöld og styrkir í hlaupinu runnu óskipt til starfsemi Krabbameinsfélags Árnessýslu og tók Erla G. Sigurjónsdóttur starfsmaður félagsins við styrknum sem nam 375.000 krónum.

Fyrri greinIngi Rafn búinn að skora í öllum deildum Íslandsmótsins
Næsta greinLyngheiði skemmtilegasta gatan