Brynja Ósk Rúnarsdóttir á Hellu ætlar að raka af sér hárið til styrktar Sigurhæðum. Brynja safnar í minningu móður sinnar, Þórdísar Óskar Sigurðardóttur, sem lést árið 2020.
Sigurhæðir er úrræði fyrir konur sem eru að vinna sig frá áhrifum kynbundins ofbeldis af hvaða tegund sem er. Það er Soroptimistaklúbbur Suðurlands sem er frumkvöðull að stofnun Sigurhæða, sem hefur aðsetur við Þórsmörk 7 á Selfossi.
„Ég er búin að vera í viðtölum í Sigurhæðum. Þetta er búið að vera langt ferli hjá mér. Ég fór í Stígamót fyrir mörgum árum, er sjálf búin að vera í alls konar vinnu – er búin að vera að læra cranio, höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð, sem er mjög mikil sjálfsvinna. Þar er hægt að fara djúpt í undirmeðvitund og upplifa fæðingu. Þetta eru búin að vera svo mörg ár en það var 2005 sem þetta byrjar að opnast hjá mér frá bernskunni,“ segir Brynja Ósk í samtali við sunnlenska.is.
Góðar móttökur í Sigurhæðum
Brynja Ósk segir að Sigurhæðir hafi veitt henni ómetanlega hjálp í sjálfsvinnunni. „Svo var þetta þannig í fyrra að ég var pínu uppgefin á sjálfri mér – að þetta væri ekki enn búið hjá mér. Vinkona mín, sem hefur stutt mig í þessu var bara „jæja er þetta ekki orðið fínt?“ og mér fannst ég vera búin að loka á þá sem höfðu aðstoðað mig. Bara það að fara í Sigurhæðir – það bara gerðist eitthvað þar. Það var tekið svo vel á móti mér og hún sagði svo einlægt „þú getur alltaf verið hérna – þú mátt alltaf vera hérna. Þú getur alltaf komið hingað og þú mátt vera hérna alltaf.“ Og það var svo ómetanlegt og gott.“
Sagan hennar mömmu sem var aldrei sögð
Sem fyrr segir safnar Brynja Ósk fyrir Sigurhæðir í minningu móður sinnar. „Ég ákvað árið 2018 að skrifa söguna mína. Ég fékk Hörpu Rún frænku mína í lið með mér. Ég bankaði upp hjá henni og við ætluðum að gera saman sögu. Ég fékk það heimaverkefni að segja öllum í fjölskyldunni áform mín. Og móðir mín heitin – elsku mamma – hún var svo spennt og tók þessu svo vel. „Ég hef ekkert að fela, Brynja mín“ því að hún vissi náttúrulega að sagan mín er hennar saga. Hún var alltaf að minna mig á þetta „hvenær ætlarðu að fara að skrifa Brynja mín? Viltu ekki fá lánað hjá mér hjólhýsið, farðu nú að skrifa.“ En ég var bara í öðrum verkefnum á þessum tíma og svo deyr hún 2020.“
„Ég ætlaði alltaf að segja söguna hennar mömmu – ég var búin að segja henni það. Og í Sigurhæðum þá finn ég það svo sterkt að þegar ég er að vinna í mínu að þá er ég líka að vinna í hennar. Ég fæddist með hennar áföll í rauninni. Í minni sjálfsvinnu þá fer ég í fæðinguna mína og mér finnst skrítið að segja það – og ég veit að fólk skilur þetta ekki en góð vinkona mín sagði „fólk þarf ekki að skilja þig, Brynja“.“
Safnar áheitum á hárið
Brynja Ósk segir að Sigurhæðir sé einstakur staður til að vera á og að hún brenni fyrir að styðja samtökin. Það að safna fyrir Sigurhæðir er henni mjög mikilvægt og mikið hjartans mál.
„Mig langar að fara af stað með þessa söfnun í hennar nafni. Hún deyr úr krabbameini í hálsi – hún gat aldrei talað, hún gat aldrei sagt sína sögu en hún virkilega vildi að ég gerði það fyrir hana. Þessi söfnun er partur af því að segja hennar sögu og því langar mig að safna í hennar nafni.“
Brynja Ósk ætlar að raka af sér allt hárið fyrir söfnunina. „Það verður ekki strá á höfðinu á mér þegar söfnuninni lýkur. Ég er að fá samfélagið í lið með mér í þessari söfnun og líka í raun vekja athygli á starfsemi Sigurhæða. Það eru ótrúlega margir sem hafa ekki heyrt um Sigurhæðir og vita ekki hvað þetta er en starfsemin þar er náttúrulega bara tveggja ára gömul.“
Hárið rakað af með viðhöfn í garðinum
Söfnunin hefst í dag, 20. mars og stendur til 14. maí. „Það er svo magnað að söfnunin hefjist 20. mars. Ég var alltaf með þessa dagsetningu í huga því að þá eru vorjafndægur og vorið var tíminn hennar mömmu. Tuttugasta mars eru líka tvö ár síðan þær opnuðu hjá Sigurhæðum en það er algjör tilviljun. Söfnunin verður svo til 14. maí, því að þá er mæðradagurinn. Þá verður viðhöfn í garðinum mínum á Hellu þegar hárið verður tekið af mér. Um leið afhjúpa ég ljósmyndasýningu sem ég er búin að sækja um styrk fyrir. Hluti af ágóðanum fyrir sýningunni mun renna til Sigurhæða.“
Brynja Ósk kveðst vera spennt fyrir því að raka af sér hárið. „Þetta er líka partur af endurfæðingunni minni – ég var hárlaus þegar ég fæddist. Ég þarf að upplifa það aftur, að vera hárlaus og svo þegar ég fékk hár þegar ég var lítil þá var það hvítt og ég hugsa að það verði alveg eins núna,“ segir Brynja og hlær.
Endurfæðing í Mexíkó
Ljósmyndirnar sem verða til sýnis í garðinum hennar Brynju Óskar voru teknar af Stefáni Ívars. Myndirnar eru allar af Brynju Ósk þegar hún dvaldist í Mexíkó í 37 daga síðastliðið haust. Dvöl Brynju í Mexíkó var mikið andlegt ferðalag sem hún lýsir sem endurfæðingu. Í Mexíkó synti Brynja Ósk í heitum sjó, var mikið í kristalvötnum og náði að vinna mjög mikið úr sínum áföllum – þar af voru átta dagar af mjög djúpri sjálfsvinnu. „Frumefnin fjögur – jörð, vatn, loft og eldur – hjálpuðu mér mikið.“
„Þetta eru mjög persónulegar myndir. Húsið mitt er númer átján og verða átján myndir til sýnis. Verkið heitir Óður til móður. Og það er ekki bara mamma heldur móðirin,“ segir Brynja Ósk að lokum.
Þeir sem vilja heita á Brynju Ósk og leggja málefninu lið geta lagt inn á reikning 0308-13-1093, kennitala: 240769 4419. Verndari reikningsins er Sigríður Dröfn Björgvinsdóttir.