Helgi S. Haraldsson, bæjarfulltrúi Framsóknarmanna í Árborg, sakar formann bæjarráðs um hroka og hefur sagt sig úr starfshópi um framtíðarskipan sorpmála.
Úrsögn Helga úr starfshópnum var tekin fyrir á fundi bæjarráðs í síðustu viku. Þar vitnaði Helgi í bókun Eyþórs Arnalds, oddvita D-lista, á bæjarráðsfundi vikunni áður. Þar lagði Eyþór fram eftirfarandi bókun:
„Framlenging á núverandi samningi til áramóta ígildir í raun tíu mánaða framlengingu, fyrir liggur samhljóða samþykki bæjarráðs um framlengingu í átta mánuði. Hér er því deilt um keisarans skegg. Bæjarfulltrúar D-lista settu á fót þverpólitískan samráðshóp í sorpmálum, vera kann að það hafi verið misráðið ef samráðið verður til þess að hægja á málum.“
Helgi segir að í þessari bókun komi fram þvílíkur hroki Eyþórs í garð samstarfsfólks síns í bæjarstjórn og telur hann sig ekki geta unnið undir svona hótunum. Því telji hann ráðlegast að segja sig úr samráðshópi um stefnumótun í sorphirðu. „Meirihluti D-listans getur þá einbeitt sér að því að gera hlutina eins og honum hentar og þarf ekki að dragnast með bæjarfulltrúa „sem hægir á málum“,“ bætir Helgi við.
Eggert Valur Guðmundsson, bæjarráðsfulltrúi S-lista, lagði fram bókun í kjölfar Helga þar sem hann sagðist hafa skilning á afstöðu hans. „Það er áhyggjuefni ef það sem fram kemur í bókun D-lista fulltrúanna er raunveruleg afstaða þeirra til samráðs og samvinnu allra bæjarfulltrúa um málefni sveitarfélagsins,“ segir Eggert. Hann segist þó ætla að starfa áfram með samráðshópnum.