Sala á Neyðarkallinum hafin

Sala á Neyðarkalli björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar hófst formlega í dag en hún stendur yfir fram á laugardagskvöld.

Fyrstu Neyðarkallana seldu þau Sóley Eiríksdóttir, sem var 11 ára þegar snjóflóðið féll á Flateyri og var bjargað úr því eftir níu tíma, og Jón Svanberg Hjartarson, sem var lögreglumaður á staðnum og stýrði aðgerðum fyrstu klukkkustundirnar eftir að flóðið féll. Hann starfar nú sem framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Þótti við hæfi að minnast þess að 20 ár eru síðan snjóflóðin mannskæðu féllu á Vestfjörðum en þau voru eitt stærsta verkefni sem björgunarsveitir landsins hafa tekist á hendur.

„Ég er glöð að fá tækfæri í dag til þess að sýna björgunarsveitum landsins þakklæti mitt,“ sagði Sóley í Smáralind í dag. „Mér finnst ótrúlega gaman að fá að taka þátt í að styðja þetta góða málefni.“

Neyðarkall björgunarsveita í ár er úr bílaflokki björgunarsveitar. Mikið mæddi á bílaflokkum sveita síðast vetur, og þá sérstaklega þeim er búa við fjallvegi og heiðar sem teppast fljótt þegar snjóar. Margar slíkar björgunarsveitir eru litlar og tiltölulega fáir einstaklingar sem sinna útköllunum og því mikið álag á þeim.

Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar segir landsmenn spennta að fá nýjan Neyðarkall enda sé hann orðinn söfnunargripur hjá mörgum. „Við stígum sjaldan fram til að óska eftir stuðningi. Sala Neyðarkalls er snarpt átak sem hefur með árunum orðið ein af mikilvægustu fjáröflunum björgunarsveitanna. Almenningur hefur hingað til tekið þessu átaki vel og ég hvet landsmenn til að taka vel á móti sjálfboðaliðum björgunarsveita og styrkja sína sveit til góðra verka, samfélaginu til heilla.“

Sjálfboðaliðar björgunarsveitanna munu selja Neyðarkall um allt land; finna má þá í verslunarmiðstöðvum, við verslanir, vínbúðir og víðar þar sem fólk er á ferðinni. Víða verður einnig gengið í hús en það á helst við í minni bæjarfélögum á landsbyggðinni.

Fyrri greinSöguskilti um Drullusund afhjúpað
Næsta greinHamar lá í valnum