Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti lýsingu að deiliskipulagi Hvamms- og Holtavirkjunar á síðasta fundi sínum.
Þessi samþykkt er lýsing á vinnu við deiliskipulagsvinnu en framkvæmdaleyfi verður veitt þegar skipulagsferlinu er lokið og öllum samningum aðila hvað varðar framkvæmdirnar. Einnig er framkvæmdaleyfi háð ákvörðunum stjórnvalda er varðar rammaáætlun.
Fulltrúar sveitarfélagsins hafa fundað með Landsvirkjun og lagt áherslu á að unnið verði að úrbótum á vegakerfi sem tengist fyrirhuguðum virkjunum. Lögð er áhersla á varanlegt slitlag á efri hluta Landvegar og tengingu inn á bundið slitlag á hálendinu, þannig að hægt verði að taka við þeirri auknu umferð sem verður um Landveg með tilkomu brúar yfir Þjórsá fyrir ofan Búðafoss og með vegtengingu inn á Landveg. Einnig að komið verði á bundnu slitlagi á Árbæjarbraut og Hagabraut vegna framkvæmdanna.
Rík áhersla er lögð á að Landsvirkjun hafi samráð við alla landeigendur og full sátt náist er varðar aðkomuvegi að virkjunum og að samningum verði hraðað við landeigendur ef þeim er ekki lokið.