Sama Orkuverð á öllu Suðurlandi

Orkan býður nú sama verð á öllum bensínstöðvum sínum innan sama landsvæðis og leitast við að bjóða alltaf lægsta eldsneytisverðið á hverju landssvæði.

Verð á 95 oktana bensíni hjá Orkunni á Selfossi hefur lækkað um 20 aura síðan í gær og er nú 186,80 krónur lítrinn. Sama verð er á Orkustöðvunum í Þorlákshöfn, Hveragerði, Hvolsvelli, Vestmannaeyjum og Vík í Mýrdal. Í gær var verðið 199,0 krónur lítrinn í Þorlákshöfn svo dæmi sé tekið.

Orkuvernd er nafn nýrrar verðstefnu Orkunnar. Tilgangur Orkuverndar er að auðvelda neytandanum að velja ávallt þann aðila sem býður lægsta verðið á eldsneyti á því landssvæði sem neytandinn er staddur hverju sinni.

Við ákvarðanir um verðlagningu styðjast starfsmenn Orkunnar við verðupplýsingar sem birtast á www.bensinverd.is. Notast verður við sömu skiptinguna í landssvæði og þar birtist, en www.bensinverd.is er óháð vefsíða sem hefur haldið úti verðsamanburði á eldsneyti undanfarin ár.

Handhafar Orkulykla, Orkukorta og korthafar Skeljungs fá svo eftir sem áður afslátt af því verði sem er á verðskilti hverrar stöðvar.

„Við hjá Skeljungi höfum fundið fyrir óánægju margra okkar viðskiptavini og sömuleiðis þrýstihópa með að töluverður munur getur verið á eldsneytisverði Orkustöðva sem jafnvel eru mjög nálægt hvorri annarri. Við viljum gera neytendum auðveldara að nálgast ódýrasta eldsneytið hverju sinni. Neytendur geta framvegis treyst því að starfsmenn Orkunnar muni leita allra leiða til að halda verðinu á stöðvum fyrirtækisins lægra en hjá öðrum fyrirtækjum,” segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs.

Fyrri greinSyrpa frá Selfossvelli
Næsta grein50 ár með skærin á lofti