Saman gegn sóun á Suðurlandi

Saman gegn sóun er almenn stefna umhverfis, orku- og loftslagsráðherra um úrgangs- forvarnir og Umhverfisstofnun hefur verið falið að endurskoða stefnuna.

Af því tilefni verður haldinn opinn fundur fyrir fólk og fyrirtæki á Midgard Base Camp á Hvolsvelli miðvikudaginn 19. júní kl. 10-12. Þar gefst áhugasömum færi á að fræðast um þau tækifæri sem liggja í bættri nýtingu og minni sóun og koma með tillögur að aðgerðum. Nánari upplýsingar og skráningu má finna hér.

Við mótun nýrrar stefnu gefst tækifæri til að horfa til baka, meta árangur og móta nýja framtíðarsýn. Lögð er áhersla á að almenningur, fyrirtæki og stofnanir um land allt hafi tækifæri til að hafa áhrif á nýju stefnuna og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Í framhaldinu verða gerð drög að aðgerðaáætlun og aðgerðir mótaðar sem eru til þess fallnar að draga úr sóun, flýta innleiðingu hringrásarhagkerfis hér á landi og auka þar með velsæld fólks og fyrirtækja í landinu.

Úrgangsforvarnir eru mikilvægur hlekkur í hringrásarhagkerfinu en þær snúast í kjarna sínum um að draga úr myndun úrgangs í samfélaginu. Áhersla er lögð á auðlindir séu nýttar betur og lengur og að samfélagið allt geti tekið þátt í þeirri vegferð með einhverjum hætti.

Fyrri greinKolbrún Katla íþróttakona Flóahrepps 2023
Næsta greinEva Hrönn ráðin aðstoðarleikskólastjóri