Saman í saumaklúbbi í 70 ár

Þær eru ekki af baki dottnar átta vinkonur sem stofnuðu sinn saumaklúbb fyrir 70 árum því þær hittast enn reglulega þrátt fyrir að vera orðnar 88 ára, allar fæddar 1927.

Konurnar eiga það sameiginlegt að hafa útskrifast saman úr Kvennaskóla Reykjavíkur fyrir 70 árum en þær stofnuðu klúbbinn samhliða útskriftinni.

„Þetta er reglulega góður félagsskapur og við höfum alltaf nóg til að spjalla um, því get ég lofað þér. Við hittumst alltaf á hálfsmánaðar fresti yfir vetrartímann og tökum okkur frí yfir sumarið. Við höfum alltaf skipst á að halda fundina en það er þó regla að ég held alltaf síðasta fund vetrarins heima hjá mér á Selfossi en allar hinar konurnar búa á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þorbjörg Sigurðardóttir á Selfossi sem hélt 70 ára afmælisfundinn fyrir skömmu.

Konurnar komu með leigubíl frá Reykjavík, stoppuðu í þrjá klukkutíma hjá Þorbjörgu og þáðu hjá henni sérrí og glæsilegar kaffiveitingar.

„Nei, nei, við erum ekki hættar með klúbbinn, við ætlum að halda áfram eins lengi og heilsa okkar leyfir, þetta er svo skemmtilegt,“ segir Þorbjörg þegar hún var spurð hvort þetta væri ekki orðið gott eftir 70 ár. Konurnar voru ellefu í klúbbnum í upphafi en þrjár þeirra eru fallnar frá.

Á myndinni með fréttinni eru (efri röð f.v.) Oddný Eyjólfsdóttir, Reykjavík, Ingibjörg Elíasdóttir, Reykjavík, Vigdís Guðfinnsdóttir, Kópavogi, Guðný Guðjónsdóttir, Reykjavík, Helga Þorvaldsdóttir, Hafnarfirði og Salome Þorkelsdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis sem var sérstakur heiðursgestur fundarins. (Sitjandi f.v.) Þóra Þorleifsdóttir, Reykjavík og Þorbjörg Sigurðardóttir, Selfossi.

Fyrri grein„Ég get farið sáttur heim“
Næsta greinMagnað sólsetur á Selfossi – Myndband