Sambíóin loka á Selfossi

Sambíóin munu hætta bíórekstri á Selfossi þann 1. nóvember næstkomandi. Sýningarbúnaður bíósins er úreltur og ekki til fjármagn til að kaupa nýjan.

Eins og sunnlenska.is greindi frá í júlí sl. er nýr sýningarbúnaður of dýr til þess að hægt sé að réttlæta kaup á honum fyrir lítið bíó.

Sambíóin leigja allan sýningarbúnaðinn af eigendum Hótel Selfoss en Selfossbíó hefur verið rekið undir merkjum Sambíóanna frá árinu 2006. Tíu starfsmenn vinna hlutastörf í bíóinu.

Alfreð Árnason, framkvæmdastjóri Sambíóanna, staðfesti í samtali við sunnlenska.is að bíóinu á Selfossi verði lokað þann 1. nóvember að öllu óbreyttu. Sunnlendingar þurfa því að hverfa aftur til fortíðar og ferðast til höfuðborgarinnar ætli þeir sér að sjá kvikmyndir á breiðtjaldi.

Fyrri greinGöngustígur sem tengir þorpin við ströndina
Næsta greinKanínur til vandræða í Árborg