Gríðarlegur samdráttur hefur orðið í umferð um Suðurlandsveg en þar hefur umferðin minnkað um 8,2% frá áramótum.
Vegagerðin birti í dag niðurstöður talninga á sextán völdum talningarstöðum á hringveginum. Samkvæmt henni stefnir í mesta samdrátt í umferð á milli ára frá því talning hófst árið 1975. Umferðin núna er nánast sú sama og hún var árið 2005.
Þessi mikli samdráttur nú virðist fyrst og fremst vera borinn uppi af gríðarlegum samdrætti á akstri um Suðurlandsveg. Þar hefur umferð minnkað um 8,2% frá áramótum og um 9,3% frá nóvember í fyrra.
Varðandi skýringar á þessum mikla samdrætti á Suðurlandi, fyrir utan sjálfa kreppuna mætti velta upp öðrum áhrifaþáttum eins og eldgosi, flóðum og sýkingum í hrossum, sem færa má fyrir því rök að hafi haft aukalega áhrif á Suðurland umfram önnur svæði.