Töluverður samdráttur varð í starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á síðasta ári.
Segir í ársskýrslu HSu að það skýrist af því að stofnunin þurfti að takast á við verulega lækkun fjárveitinga.
Helstu breytingar á starfseminni milli ára eru fækkun fæðinga en þær fóru úr 162 árið 2009 í 96 árið 2010. Ástæðan þessa er að lagðar voru niður vaktir fæðinga-, skurð- og svæfingalækna og fæðingadeildinni breytt í ljósmæðrarekna einingu.
Sjúklingum á legudeildum fækkaði um tæp 3% og legudögum um rúmlega 8%. Meðalnýting á lyf- og handlæknisdeild var 64% sem er 22% minni en var árið 2009. Skurðaðgerðum fækkaði um tæp 22% og speglunum um 15%.
Eldgosin á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli höfðu mikil áhrif á starfsemi stofnunarinnar, sérstaklega í Rangárþingi og í Vík. Þrátt fyrir að þessum gosum sé lokið gætir áhrifa þess víða og starfsfólk Hsu er enn á vaktinni, segir í skýrslunni.