Nefnd sem kannað hefur sameiningarkosti sveitarfélaga á landinu hefur sett fram fyrstu hugmyndir um sameiningarkosti. Nokkrar hugmyndir eru uppi á borðinu varðandi Suðurland.
Nefndin telur ekki forsendur fyrir því að sameina Suðurland í eitt sveitarfélag frá Ölfusi austur á Hornafjörð, að Vestmannaeyjum meðtöldum. Eðlilegast er talið að skoða fyrst hugmynd sem gerir ráð fyrir tveimur sveitarfélögum.
Þannig yrði öll Árnessýsla eitt sveitarfélag en Rangárvallasýsla og V-Skaftafellssýsla myndu sameinast Vestmannaeyjum og Hornafirði.
Sameiningin austan Þjórsár að Hornafirði með Vestmannaeyjum myndi skapa rúmlega 10.000 manna sveitarfélag á tæpum 22.000 ferkílómetrum. Slíkt sveitarfélag hefði bolmagn til að sinna núverandi verkefnum en gríðarlega langar vegalengdir yrðu milli ákveðinna byggðakjarna. Höfn og Eyjar yrðu utan við samstarf á einhverjum sviðum og austurhluti svæðisins gæti einangrast auk þess sem takmörkuð hefð er fyrir samvinnu á þessu svæði.
Kostirnir fyrir sameiningu Árnessýslu í eitt 15.500 manna sveitarfélag eru nokkrir en mikil hefð er fyrir samvinnu á svæðinu sem er samfellt atvinnu- og þjónustusvæði með Selfoss sem þjónustukjarna. Fámenn jaðarsvæði gætu þó upplifað áhrifaleysi og þjónusta fjarlægist hluta íbúanna. Auk þess er mikil andstaða við sameiningu allrar sýslunnar í Ölfusinu.
Vegna andstöðu Ölfusinga setur nefndin fram aðra hugmynd þar sem Ölfus og Hveragerði myndu sameinast í eitt sveitarfélag og önnur sveitarfélög sýslunnar í annað. Þar með séu kostirnir mun fleiri en gallarnir auk þess sem landrými í Hveragerði sé lítið, aðeins 9 ferkílómetrar, en Ölfus umlykur Hveragerði. Ölfus/Hveragerði hefði þó ekki bolmagn til að taka við stórum verkefnum frá ríkinu og þyrfti að treysta á samvinnu við sveitarfélög á Árborgarsvæðinu eða höfuðborgarsvæðinu.
Að lokum er sett fram sú hugmynd að sameina sveitarfélögin þrjú í Rangárvallasýslu við Mýrdalshrepp og Skaftárhrepp. Úr því yrði 4.500 manna sveitarfélag sem yrði nógu öflugt til þess að sinna núverandi verkefnum sveitarfélaga, án samvinnu við nágranna sína. Ný og stærri verkefni frá ríkinu yrði hins vegar að fóstra með byggðasamlögum eða þjónustusamningum við stærri sveitarfélög, þar sem sveitarfélagið nær ekki lágmarksíbúafjölda sem miðað er við.
Hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga er starfandi vinnuhópur um sameiningarmál og þar hefur verið sett fram ein hugmynd til viðbótar, þ.e. að sameina allt Suðurland nema Hornafjörð og Vestmannaeyjar. Sameiningarnefndin telur þetta athyglisverða hugmynd og hvetur vinnuhóp SASS til þess að ræða hana og greina kosti og galla í þeirri vinnu sem framundan er.
Fjallað verður um þessar tillögur og aðrar tillögur nefndarinnar á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem nú stendur á Akureyri.