Samfylkingin á miklu flugi í Suðurkjördæmi

Víðir Reynisson, Ása Berglind Hjálmarsdóttir, Sverrir Bergmann og Arna Ír Gunnarsdóttir.

Samfylkingin er með 25,7 prósenta fylgi í Suðurkjördæmi og stóreykur fylgi sitt í kjördæminu á milli mánaða í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup.

Fyrir mánuði síðan var fylgi flokksins 18,0 prósent en Samfylkingin fékk 17,3 prósent fylgi í síðustu Alþingiskosningum.

Gallup fékk 631 svar frá kjósendum í Suðurkjördæmi í þjóðarpúlsi sem tekinn var 3. til 31. mars og birtir sunnlenska.is niðurstöðurnar úr Suðurkjördæmi í samstarfi við RÚV. Þátttakendur voru valdir af handahófi úr viðhorfahópi Gallups.

Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram að auka fylgi sitt og er nú með 23,4 prósent en var með 21,1 prósent í febrúar. Fylgi flokksins hefur verið á stöðugri uppleið frá því í síðustu Alþingiskosningum þar sem flokkurinn fékk 19,6 prósenta fylgi.

Flokkur fólksins heldur áfram að dala
Fylgi Flokks fólksins heldur áfram að dala í kjördæminu. Það er 13,4 prósent nú og lækkar um 0,3 prósent á milli mánaða. Flokkur fólksins fékk 20,0 prósent í kosningunum í nóvember. Suðurkjördæmi er áfram lang sterkasta vígi Flokks fólksins á landinu.

Fylgi annarra flokka er svipað í þjóðarpúlsinum nú, eins og það var í febrúar. Framsóknarflokkurinn mælist með 11,3 prósent fylgi í Suðurkjördæmi, Miðflokkurinn 11 prósent, Viðreisn 9,3 prósent, Sósíalistar 2,1 prósent, Lýðræðisflokkurinn 0,5 prósent, Vinstri græn 1,5 prósent og Ábyrg framtíð 0,0 prósent. Píratar tapa fylgi og eru með 1,9 prósent en voru með 3,1 prósent fyrir mánuði síðan.

Samfylkingin fengi þrjá kjördæmakjörna þingmenn
Yrðu þetta niðurstöður þingkosninga í dag myndi Flokkur fólksins missa einn kjördæmakjörinn þingmann og Samfylkingin bæta við sig einum. Samfylkingin fengi 3 þingmenn, Sjálfstæðisflokkurinn 2, Flokkur fólksins 1, Miðflokkurinn 1, Framsókn 1 og Viðreisn 1.

Fyrri greinLíf og fjör og fár í Flóa 
Næsta greinSnæfell jafnaði metin