Samfylkingin í Suðurkjördæmi býður öllum til málefnastarfs

Nú í haust er Samfylkingin að hleypa af stað samráði um atvinnu- og samgöngumál.

Samfylkingin í Suðurkjördæmi telur brýnt að bæta hagstjórn á Íslandi til að bæta lífskjör almennings í landinu. Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru séu hvort tveggja atriði sem munu auðvelda íbúum Íslands að ná því markmiði.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi um síðustu helgi.

„Fleira þarf líka að koma til og því mun Samfylkingin í Suðurkjördæmi vinna að stefnumörkun í atvinnumálum og styrkingu innviða og velferðar með áherslu á hvað brýnt sé að gera í okkar víðfeðma kjördæmi. Þannig vinna saman áherslur Samfylkingarinnar á landsvísu og úrræði á hverjum stað. Samfylkingin er nú að kynna örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum, sem er afrakstur víðtæks samráðs sem fram fór síðasta vetur. Nú í haust er Samfylkingin að hleypa af stað samráði um atvinnu- og samgöngumál og mun Samfylkingin í Suðurkjördæmi taka virkan þátt í því málefnastarfi og bjóða fólki að taka þátt í því óháð allri annarri stjórnmálaþátttöku,“ segir ennfremur í ályktuninni.

Fyrri greinSvör við opnu bréfi um hagræðingaraðgerðir í Sveitarfélaginu Árborg
Næsta greinMenningarsalur, já takk