Betur fór en á horfðist þegar olíuflutningabíll með tengivagni valt á hringveginum við Skálm í Skaftárhreppi á fimmta tímanum í dag. Bílstjórinn slapp án teljandi meiðsla.
Allir tiltækir viðbragðsaðilar voru kallaðir út og með samhentu átaki slökkviliðs, björgunarsveita og bænda á svæðinu tókst að koma í veg fyrir alvarlegt mengunarslys.
Hráolía var í tönkunum og lak hún úr aftanívagninum sem slitnaði frá í veltunni. Gat kom á tankinn en vel gekk að stöðva lekann. Bændur mættu á dráttarvélum og vagninum var komið á hjólin aftur.
Tildrög slyssins eru ekki ljós en útlit er fyrir að bíllinn hafi skrikað í lausamöl. Ökumaðurinn var fluttur á heilsugæslu HSu á Klaustri til aðhlynningar.
Umferð um slysstað gengur vel en önnur akreinin er lokuð og er útlit fyrir að svo verði að minnsta kosti fram að miðnætti.