Sveitarfélög í uppsveitum Árnessýslu ásamt Flóahreppi hafa tekið sig saman um söfnun og förgun seyru. Samningar hafa verið undirritaðir vegna þessa og verður notuð aðstaða til söfnunar á svæði norðan við Flúðir, en Hrunamenn hafa safnað þar seyru undanfarin þrjú ár.
Seyru verður því í framtíðinni safnað saman og ekið með hana á vinnslusvæðið en þar er sérstöku kalki blandað út í seyruna. Í framhaldi má svo dreifa seyrunni á yfirborð jarðar og hún nýtist því sem áburður á tilteknum svæðum.
Árið 2012 gerðu Hrunamannahreppur og Landgræðsla ríkisins með sér samning um tilraunaverkefni með notkun á seyru til uppgræðslu. Tilraunaverkefnið var framkvæmt innan landgræðslugirðingar fremst á Hrunamannaafrétti, þangað sem seyran var flutt og felld niður með sérstökum búnaði. Verkefnið stóð í þrjú ár og var unnið með samþykki Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Landgræðslan fylgdist með framvindu og árangri uppgræðslunnar og strax á fyrsta ári mátti sjá að gróðurþekja jókst þar sem seyru var dreift.
Ragnar Magnússon, oddviti Hrunamannahrepps, segir þetta hafa tekist vel en hann segir nýja aðferð verða enn heppilegri. „Þetta hefur sýnt heilmikinn árangur,“ segir hann. Ætlunin er að fjölga þeim svæðum sem seyrunni verður dreift á, til að mynda verður nú ekið með hana til dreifingar inn á Haukadalsheiði.
„Við höfum einungis farið með þetta inneftir á sumrin og ég reikna með að þannig verði það áfram,“ segir Ragnar. Hann segir förgunina ekki ódýra. „Nei, þetta er ekki gefins, en þetta er um það bil á pari við þann kostnað sem felst í að aka með hana til förgunar í Reykjavík.“