Samið við kvenfélagskonur um gerð margnota innkaupapoka

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur samþykkt að fara í samstarf við kvenfélögin þrjú í sveitinni um gerð margnota innkaupapoka einn fyrir hvert heimili í sveitarfélaginu.

Innkaupapokinn verði hvatning til íbúa til þess að minnka plastpokanotkun og táknrænt verkefni sem minni á það hvernig innkaupastjóri hvers heimilis fyrir sig getur stýrt samsetningu heimilissorpsins með vali á neysluvörum í umhverfisvænum umbúðum.

„Það þarf að búa til nokkur sýnishorn sem verða í notkun í nokkrar vikur til þess að reyna að finna út hvað hentar best, hvað varðar stærð og gerð. Þetta eru rúmlega 200 pokar sem verða afhentir en það er spurning hversu hratt þetta vinnst hvenær hægt er að afhenda pokana. Ég sé fyrir mér að það verði á seinni hluta ársins, ef allt gengur eftir. Við verðum að gefa kvenfélagskonum nokkra mánuði til þess að klára hönnun og saumaskap og við viljum geta afhent öllum á sama tíma,“ segir Eydís Indriðadóttir, sveitarstjóri, í samtali við Sunnlenska.

Fyrri greinSameining prestakalla vart á dagskrá fyrr en 2016
Næsta greinHörður í ham gegn Hömrunum