Hrunamannahreppur hefur samþykkt að ganga að tilboði Límtré-Vírnets ehf. í framleiðslu á burðarvirki og yleiningum í viðbyggingu íþróttahússins á Flúðum.
Tilboð Límtrés-Vírnets hljóðar upp á rúmlega 44,5 milljónir króna. Sveitarstjóra hefur verið falið að ganga til samninga við fyrirtækið á grundvelli tilboðsins.
Á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku kom fram að verðkönnun vegna jarðvinnu sé í gangi og teikningar og leyfismál í vinnslu.
Um er að ræða 730 fermetra stækkun á íþróttahúsinu ásamt 180 fermetra áhaldageymslu en smíðinni á að ljúka á næsta ári. Áætlaður heildarkostnaður við verkið er um 150 milljónir króna.
Á sama fundi var kynnt samantekt á aðsókn í sundlaugina á Flúðum og tækjasal íþróttahússins á síðasta ári. Alls sóttu sundlaugina rúmlega 15.000 manns sem er svipað og árið 2012. Þá sóttu á árinu 2013 tæplega 2.200 manns tækjasal íþróttahússins