Á dögunum voru opnuð tilboð í tvo verkþætti við byggingu íþróttahússins á Flúðum, uppsteypu og lagnir og reisingu hússins.
Tvö tilboð bárust í þau verk sem boðin voru út, frá Pálmatré ehf í Reykjavík og Jáverk ehf á Selfossi.
Pálmatré bauð lægra í uppsteypu og lagnir, tæpar 28,5 milljónir króna en Jáverk bauð tæpar 28,9 milljónir króna. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á tæpar 27,4 milljónir króna.
Jáverk bauð lægst í reisingu hússins, tæpar 32,7 milljónir króna en Pálmatré buð rúmar 49,7 milljónir króna. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á rúmar 28,6 milljónir króna.
Sveitarstjóra hefur verið falið að ganga til samninga við lægstbjóðendur í verkin.
Límtré-Vírnet mun framleiða burðarvirki og yleiningar í húsið en um er að ræða 730 fermetra stækkun á íþróttahúsinu ásamt 180 fermetra áhaldageymslu og á smíðinni að ljúka á næsta ári.
Áætlaður heildarkostnaður við verkið er um 150 milljónir króna.