Samið við Sonus um 17. júní

Bæjarráð Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að ganga til samninga við Sonus Viðburði vegna 17. júní hátíðarhaldanna á Selfossi 2017 til 2019.

Fjórar umsóknir bárust um að skipuleggja og sjá um 17. júní hátíðarhöldin eftir að sveitarfélagið auglýsti eftir áhugasömum framkvæmdaaðilum í október síðastliðnum. Aðrir umsækjendur voru EB kerfi, Premia ehf og Magnús Guðmundsson og Gunnar Eysteinn Sigurbjörnsson.

Íþrótta- og menningarnefnd sveitarfélagsins skipaði starfshóp til þess að fara yfir umsóknirnar og ræða við umsækjendurna. Að þeirri vinnu lokinni lagði nefndin til við bæjarráð að samið yrði við Sonus Viðburði, viðburðafyrirtæki í eigu Bessa Theodórssonar.

„Ég á eftir að funda með sveitarfélaginu um nánari útfærslu en lykilatriði verða í föstum skorðum. Það verður líka eitthvað um nýjungar í dagskránni og eru margar hugmyndir í pokahorninu. Sonus Viðburðir mun sjá um utanumhaldið en eins og áður koma margir að framkvæmd hátíðarhaldanna. Ef einhverjir þarna úti hafa áhuga á að koma að undirbúningi eða hafa frábæra hugmynd þá er um að gera að hafa samband,“ sagði Bessi í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri grein„Stækkar vissulega markhópinn“
Næsta greinMikil vinna lögð í að tryggja fulla mönnun lækna í Rangárþingi