Samið um eftirlit með lífrænni framleiðslu

Gunnar frá Túni ásamt starfsmönnum Matvælastofnunar. (F.v.) Einar Örn Thorlacius, Dóra S. Gunnarsdóttir, Gunnar Á. Gunnarsson, Jón Gíslason forstjóri, Ingibjörg Jónsdóttir og Katrín Guðjónsdóttir. Ljósmynd/MAST

Forstjóri Matvælastofnunar og framkvæmdastjóri vottunarstofunnar Túns undirrituðu í gær samning um framsal eftirlits með lífrænni framleiðslu.

Tún mun því áfram annast vottun og eftirlit með ræktun og framleiðslu lífrænna landbúnaðarafurða eins og hingað til.

Árið 2017 tók gildi hérlendis reglugerð Evrópusambandsins um lífræna framleiðslu og merkingu lífrænna vara. Með breytingu á lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu sem tóku gildi um síðustu áramót fer Matvælastofnun með stjórnsýslu og opinbert eftirlit á þessu sviði. Matvælastofnun hefur heimild til að framselja vottun og eftirlit til aðila með faggildingu.

Matvælastofnun auglýsti í október síðastliðnum eftir faggildum aðila til að sinna vottun og reglubundnu eftirliti með þeim sem sækja um eða hlotið hafa starfsleyfi til að framleiða, dreifa og markaðssetja lífrænt vottaðar afurðir. Ein umsókn barst stofnuninni. Hún var frá Vottunarstofunni Tún sem hefur annast eftirlitið frá árinu 1994.

Fyrri greinÞórsarar settu stigamet
Næsta greinÞór Llorens lánaður á Selfoss